Olíuverð hefur hækkað mikið frá ársbyrjun og stendur nú hærra en þegar það stóð hvað hæst í fyrra. Fatið af Brent hráolíu kostar nú um 53 dollara á markaði í London en kostaði mest í fyrra um 51,5 dollara í lok október. Eftirspurn hefur vaxið mikið og menn hafa áhyggjur af ónógu framboði. Framleiðsla OPEC ríkjanna sem framleiða um 40% af heildarframleiðslu er nálægt hámarki miðað við framleiðslugetu og ríkin hafa ekki náð samkomulagi um að auka framleiðslu eins og bent er á í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þer er bent á að ótryggt ástand í Mið-Austurlöndum bætir ekki úr skák og kuldar herja nú á Evrópu og Norður Ameríku sem auka eftirspurnina.

Í Morgunkorninu er bent á að sterk neikvæð fylgni á milli almenns hlutabréfaverðs og heimsmarkaðsverðs á olíu einkenndi seinni hluta ársins í fyrra. Lækkun (hækkun) hlutabréfaverðs átti sér þannig iðulega stað samtímis hækkun (lækkun) olíuverðs. Á þessu ári hefur verð á olíu hækkað verulega á ný en þeirri hækkun hefur ekki fylgt sú lækkun á hlutabréfaverði sem vænta mætti út frá fylgnisambandinu fyrrgreinda. Árið hefur þó ekki verið upp á marga fiska enn sem komið er á hlutabréfamarkaði, en S&P 500 vísitalan hefur lækkað um 0,4% frá áramótum og Nasdaq hefur lækkað um 5,7%. Þrátt fyrir að reiknað sé með góðri afkomu fyrirtækja gefa spár til kynna minniháttar hækkun hlutabréfaverðs yfir árið. Hátt olíuverð mun ekki hjálpa til. Ef marka má hagvaxtarspár og reiknað er með óbreyttu ástandi í Mið-Austurlöndum verður að teljast líklegt að olíuverð verði áfram hátt á næstunni þótt það gefi ef til vill eftir frá núverandi stöðu.