Erlendar útgáfur skuldbréfa í íslenskum krónum hafa heldur betur tekið við sér í upphafi árs eftir þriggja vikna lægð. Má finna samhengi á milli útgáfu í krónubréfum og gengi krónunar.

?Fjórar útgáfur hafa komið það sem af er ári fyrir samtals 12,5 milljarða króna. Þar af eru tvær útgáfur frá Evrópska fjárfestingarbankanum (EIB), en hann hefur nú stækkað tvær af þremur útgáfum sínum," segir greiningardeild Landsbankans.

Skuldabréfaflokkur EIB með gjalddaga í júlí 2007 var í gær stækkaður úr þremur milljörðum króna í 4,5 milljarða króna og á föstudaginn var jók bankinn útgáfu sína með gjalddaga í október 2008 um þremur milljarða króna.

Það er næst lengsti skuldabréfaflokkur af útgáfunum enn sem komið er og aðeins lánasýsla norskra sveitarfélaga hefur gefið út lengri skuldabréf í krónum og eru þau með gjalddaga í nóvember 2010, samkvæmt upplýsingum greiningardeildarinnar

Hollenski bankinn Rabobank gaf út fimm milljarða króna skuldabréfaflokk á þrettándanum með gjalddaga í janúar 2008. Að auki bætti Austurríska ríkið þremur milljörðum króna við útgáfuna sína.

Áhrif útgáfanna eru áberandi á gjaldeyrismarkaði. Fyrstu átta mánuði ársins var meðalvelta á gjaldeyrismarkaði 136 milljarðar á mánuði en eftir að útgáfurnar fóru af stað seinustu fjóra mánuði ársins fór meðalmánaðarveltan upp í 247 milljarða, það er hún jókst um ríflega 80%, segir greiningardeildin.

Krónan styrkist jafnframt mikið, en gengisvísitalan náði lágmarki, og krónan hámarki, í byrjun nóvember.

?Nokkuð dró úr tíðni útgáfanna í nóvember og desember og á þeim tíma veiktist krónan nokkuð, en hún hefur nú tekið að styrkjast á ný eftir að útgáfurnar tóku við sér eftir áramótin" segir greiningardeildin að lokum.