Grísk hlutabréf féllu um næstum 5% í dag þegar fréttir bárust af því að engin tilboð bárust í rikisgasfyrirtækið Depa. Þetta kemur fram á vef BBC.

Salan á Depa er stór liður í einkavæðingaráformum gríska ríksins og var söluverðinu ætlað grynnka á skuldum þess. Áætlað var að 900 milljónir evra fengjust fyrir fyrirtækið eða rúmir 140 milljarðar króna.

Fréttin spurðist út þegar embættismenn Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrisssjóðsins komu til Grikklands til að meta árangur niðurskurðar- og einkavæðingaráforma ríkisstjórnar landsins.

Stjórnvöld bjuggust við tilboði frá rússneska gasrisanum Gazprom en talsmaður fyrirtækisins segir að tilboði hafi ekki verið skilað vegna áhyggja af lélegri innheimtu hjá viðskiptavinum Depa sem eru grískur almenningur og fyrirtæki.