Staða markaðsskuldabréfa nam í lok nóvember sl. 1.978 milljörðum króna og hækkaði um 27,7 milljarða á milli mánaða. Í upphafi þessa árs nam staða markaðsverðbréfa um 1.805 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans. Staða markaðsskuldabréfa hefur nú hækkað um tæpa 138 milljarða á milli ára eða 7,5%.

Staða verðtryggðra ríkisbréfa hækkaði um tæpa 34 milljarða króna á milli mánaða í nóvember og nam 142,5 milljörðum króna í lok mánaðarins. Þá hefur staða verðtryggðra ríkisbréfa hækkað um tæpa 69 milljarða á milli ára eða tæp 94%.

Staða óverðtryggðra ríkisbréfa lækkaði hins vegar um 14,4 milljarða á milli mánaða í nóvember þegar staða þeirra nam um 620 milljörðum króna. Staða óverðtryggðra ríkisbréfa hefur nú lækkað um 11,4 milljarða á milli ára eða tæp 2%.

Þá hækkaði staða íbúðabréfa um tæpa 5 milljarða á milli mánaða í nóvember en staða þeirra var í lok mánaðarins um 793 milljarðar króna. Staða íbúðabréfa hefur hækkað um tæpa 37 milljarða á milli ára eða 5%. Staða bankabréfa hækkaði um tæpa 4 milljarða í nóvember og hefur nú hækkað um rúm 40% á milli ára.

Skráð bréf fyrirtækja lækkuðu um rúma 3 milljarða í nóvember en í lok nóvember nam staða þeirra tæplega 137 milljörðum króna. Þá hafa skráð bréf fyrirtækja lækkað um rúma 3,6 milljarða á milli ára eða 2,6%.

Hreyfing með peningabréf, þ.e. ríkisvíxla og bankavíxla, var lítil í nóvember en staða þeirra hækkaði um tæpar 200 milljónir. Þá hefur staða þeirra lækkað um tæp 17% á milli ára.

Hlutabréf hækka á First North markaðnum

Skráð hlutabréf í Kauphöllinni lækkuðu um 10,6 milljarða á milli mánaða í nóvember þegar staða þeirra nam rúmum 256 milljörðum króna. Þá hafa skráð hlutabréf hækkað um tæpa 6 milljarða á milli ára eða aðeins 2,3%. Mestu munar um 5,6 milljarða króna hækkun á First North markaðnum en skráð hlutabréf á Aðallista Kauphallarinnar hafa aðeins hækkað um rúmar 220 milljónir króna á milli ára.

Vaxtafundur Seðlabanka Íslands
Vaxtafundur Seðlabanka Íslands
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)