Mikil lántaka heimila, mikil veðsetning, persónuleg lán og greiðslukortaskuldir framkalla meiri efnahagssamdrátt en ella og getur það leitt til þess að almenn neysla dregst mikið saman þegar að kreppir og atvinnuleysi eykst. Þessi staða getur tafið efnahagslega endurreisn í að minnsta kosti fimm ár.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýbirtum niðurstöðum rannsóknar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um kreppur og skuldavanda heimilanna.

Þá segir í skýrslunni: „Skuldasöfnunin náði sínum mestu hæðum á árunum fyrir alþjóðlegu kreppuna. Þegar fasteignaverðið féll í aðdraganda fjármálaakreppunnar horfðu menn á fjárhag heimila sinna hrynja. Tekjusamdráttur og aukið atvinnuleysi leiddi til greiðsluvanda; vanskil og nauðungaruppboð urðu eins og faraldur í mörgum löndum.“

Í skýrslunni segir að samspil skulda heimilanna og markaðsverðs á húsnæði ráði miklu um það hversu djúp niðursveiflan verður. Þetta sé að renna upp fyrir þjóðum eins og Íslandi, Írlandi, Spáni, Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem fasteignaverð hafi hrunið og verulegar skuldir, sem stofnað var til á bóluárum, gátu komið í veg fyrir endurreisn.

Þá segir í skýrslunni að aðgerðir hér hafi falist í því að koma í veg fyrir að fólk missti heimili sín vegna vanskila eða nauðungarsölu. Frysting lána og skuldaaðlögun hafi verið á meðal þeirra úrræða. Um helmingur heimila með lán, sem undir þetta féllu, notfærðu sér slíkar leiðir til aðlögunar. Á síðari stigum hafi heimilum gefist færi á að endurskipuleggja lán sín í beinum samningaviðræðum við lánardrottna með aðstoð embættis Umboðsmanns skuldara. Þá kemur fram að þetta verk hafi dregist og í janúar 2012 hafi aðeins 35 prósent umsókna um endurskipulagningu skuldanna heimila verið afgreiddar. Til þess að hraða þessu ferli hafi verið gripið til 110 prósenta leiðarinnar.

Nánar má lesa um niðurstöður skýrslu AGS hér