Mjög mikil lækkun varð á hlutabréfum í Bandaríkjunum í dag. Nasdaq lækkaði um 3,77% og sýndi rauðar tölur allan daginn. Dow Jones lækkaði um 1,96% og Standard & Poor's um 2,46%.

Nasdaq hefur lækkað um 5,6% fyrstu 3 daga ársins og segir Bloomberg fréttaveitan að það sé versta byrjun frá árinu 2000. Dow Jones hefur lækkað um 2% sem er versta byrjun frá árinu 1904 segir Bloomberg. Fyrir hvert hlutafélag sem hækkaði, lækkuðu 10 á móti í Kauphöllinni í New York.

Atvinnuleysi hefur hækkað í desember í 5% úr 4,7% og hafði það gífurleg áhrif á markaði í dag þrátt fyrir að störfum hafi fjölgað á almennum markaði um 18.000 stöðugildi. Það er þó mun minna en í Nóvember og gefur til kynna að efnahagskerfið sé að hægja á sér.

Tækni- og tölvufyrirtæki lækkuðu töluvert í dag og leiddu lækkanir dagsins. JP Morgan lækkaði stöðumat Intel í 'hlutlaust' og við það lækkuðu bréf í fyrirtækinu um 8,1% við þessar fréttir. Apple lækkaði einnig töluvert í dag eða um 7,6%. Hewlett Packard lækkaði um 3,1%.

Sá hluti sem snýr að smásölu í S&P vísitölunni lækkaði í dag um 3,9%. Mörg smásölufyrirtæki lækkuðu í dag en en engar jákvæðar tölur hafa birst af smásölu síðan í lok nóvember sem skipta máli að mati WSJ.