Hlutabréf féllu nokkuð í Bandaríkjunum í dag. Nasdaq lækkaði um 1,23%, Dow Jones lækkaði um 1,32% og Standard & Poor's lækkaði um 1,37%.

Mikil hækkun á verðlagi, þá sérstaklega olíu og rafmagni, er talin draga úr neyslu í desember og veldur það áhyggjum smásala. Neysluvísitalan jókst um 0,8% í nóvember en hafði aukist um 0,3% í október. Ef ekki er tekið tillit til olíu og hita hækkaði neysluvísitalan um 0,3% í nóvember sem er engu að síður meira en gert hafði verið ráð fyrir að því er Bloomberg.com greinir frá. Matarverð hefur hækkað um 0,3% tvo mánuði í röð svo dæmi sé tekið og fataverð um 0,8%.

Samkvæmt WSJ er veldur hækkandi verðlag áhyggjum á verðbólgu en mörg fjármálafyrirtæki hafa vonast til þess að stýrivextir muni lækka frekar. Talið er að svo verði ekki ef verðbólga eykst.

Black & Decker verkfæraframleiðandinn gaf í dag út afkomuviðvörun og féllu hlutabréf um 7,5% í kjölfarið. Nýlega þurfti fyrirtækið að afturkalla þráðlausar borvélar og hefur það haft þónokkur áhrif á fyrirtækið. Hagnaður á þriðja ársfjórðungi var undir væntingum og búist er við því sama á fjórða ársfjórðungi.

Black & Decker er þó lýsandi dæmi fyrir aðrar verslanir. Raftækjaverslunin Circuit City lækkaði í dag um 65 cent niður í 6,76 dali. Morgan Stanley bankinn spáir því að fyrirtækið muni tilkynna um tap á þriðja ársfjórðungi ásamt fleiri verslunum.

Bæði Amazon.com og EBay lækkuðu í verði í dag en sala á internetinu er töluvert undir væntingum. Internet sala hefur aukist um 19% frá 1. nóvember en það er minnsta aukning í nokkur ár. Salan hafði aukist um 26% á sama tíma í fyrra.

Goldman Sachs bankinn hækkaði þó um 2% í dag en þann 18. þessa mánaðar kynnir bankinn afkomu þriðja ársfjórðungs og er búist við hagnaði bankans. Annars lækkuðu önnur fjármálafyrirtæki og CNBC greindi frá því í dag að Merrill Lynch myndi að öllum líkindum tilkynna um tap á þriðja ársfjórðung og talið er að afskriftir bankans verði 4-6 milljörðum bandaríkjadala meiri en gert hafði verið ráð fyrir.