Mikil lækkun varð á Bandaríkjamarkaði annan daginn í röð í dag. Gildi Standard & Poor´s 500 vísitölunnar hefur ekki verið lægra í 11 ár, en hún hefur lækkað um 52% á rúmlega einu ári.

Aukin svartsýni fjárfesta í kjölfar þess að tölur um aukið atvinnuleysi voru birtar auk þess sem löggjafinn vestanhafs frestaði ákvarðanatöku um björgunarpakka fyrir bílabransann olli lækkun dagsins, samkvæmt frétt Bloomberg.

Minnkandi eftirspurn eftir olíu olli mikilli verðlækkun hennar, en orkufyrirtæki lækkuðu mikið í dag. Þá lækkaði gengi JPMorgan Chase um 18% og gengi bréfa Citigroup lækkaði um 26% vegna væntinga um aukið útlánatap banka þegar fyrirtæki fara í auknum mæli í þrot.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 5,1% í dag. Dow Jones lækkaði um 5,6% og Standard & Poor´s lækkaði um 6,7%.

Olíuverð lækkaði um 9,2% í dag og kostar olíutunnan nú 48,7 Bandaríkjadali.