*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 20. desember 2007 22:58

Mikil lækkun bréfa Exista

Ritstjórn

Gengi bréfa Exista [EXISTA]hefur lækkað talsvert það sem af er viku. Í lok viðskipta á föstudaginn var stóð gengið í 22,45 krónum á hlut, en við lokun markaða í dag stóð gengið í 17,85 krónum. Hér er því um að ræða ríflega 20,4% lækkun frá því í síðustu viku. Fjárfestingarfélagið FL Group [FL]hefur verið talsvert í umræðunni að undanförnu í kjölfar mikilla breytinga á valdahlutföllum félagsins, forstjóraskiptum og ekki síst tugmilljarða króna tapi á fjárfestingum sínum, og hafa bréf þess lækkað mikið.

Exista hefur ekki heldur farið varhluta af lækkun undanfarinna vikna, og hefur raunar lækkað meira en FL Group á síðastliðnum mánuði. Exista hefur þó ekki innleyst viðlíka tap og FL Group gerði með sölu á stærstum hluta eignar sinnar í AMR, eignarhaldsfélagi American Airlines. Kjölfestueignir Exista, Kaupþing og Sampo í Finnlandi, hafa að vísu lækkað talsvert að undanförnu líkt og flest önnur skráð félög, sér í lagi fjármálafyrirtæki.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa engar markverðar sviptingar orðið í hópi stærri hluthafa í liðinni viku, en sem kunnugt er seldi Bogi Pálsson, stjórnarmaður í Exista hluta eignar sinnar í félaginu ekki alls fyrir löngu.