Maí var versti mánuður á íbúðamarkaði í Danmörku síðan verðið byrjaði að lækka árið 2006.

Einbýlishúsaeigendur hafa orðið einna verst úti, en 5.000 slíkir hafa lækkað verðið á húsum sínum í tilraun til að koma hreyfingu á markaðinn.

Eigendur einbýlishúsa lækkuðu verð húsanna um 155.000 danskar krónur að meðaltali í mánuðinum, sem er met.

„Ég held að við munum sjá húsnæðisverð breytast í miklum mæli. Maður getur reiknað með að í tveimur þriðju hlutum landsins verði verðlækkunin um 10-15%,“ hefur danski miðillinn EPN eftir Puol Erik Bech frá fasteignasölunni EDC, stærstu fasteignasölu Danmerkur.

„Þetta er afleiðing vaxandi framboðs. Það hlýtur að hafa áhrif á verð þegar framboð húsa til sölu hækkar mikið en kaupendum fjölgar ekki jafnóðum. Það er vaxandi fjöldi húsa til sölu á meðan salan hefur víða minnkað um 20-40% víða um land. Því sjáum við nú sömu þróun þar og við höfum séð í Kaupmannahöfn.“

Danske Bank hefur spáð því að íbúðaverð í Danmörku muni halda áfram að lækka út árið og allt næsta ár líka.