Mikil lækkun varð á mörkuðum í Bandaríkjunum í dag og helstu vísitölur hafa allar lækkað á milli mánaða nú fjóra mánuði í röð.

Nasdaq lækkaði um 2,58%, Dow Jones lækkaði um 2,51% og S&P 500 lækkaði um 2,71%.

Alþjóðleg áhrif

Hlutabréf í Asíu og Evrópu hafa lækkað síðustu daga og er helsta ástæðan talin auknar áhyggjur af mörkuðum í Bandaríkjunum að mati bæði Bloomberg og Financial Times.

Stærsta tryggingafélag Bandaríkjanna, American International Group (AIG) tilkynnti í dag um afskriftir upp á 5,3 milljarð bandaríkjadala en fyrirtækið hefur nýlega afskrifað 11,1 milljarð og sagðist búast við fleiri afskriftum á þessu ári. Félagið lækkaði um 6,6% í kjölfarið.

Þessar fréttir höfðu töluverð áhrif á Bandaríkin en talið var að flestar „stórar“ afskriftir væru búnar og því voru þessar tölur nokkuð sjokk fyrir markaðinn eftir því sem Bloomberg fréttaveitan segir. „Hér er enginn skortur á neikvæðum fréttum,“ hafði Bloomberg eftir viðmælenda sínum.