Hlutabréf lækkuðu töluvert í Bandaríkjunum í dag.

Nasdaq lækkaði um 3,08% og stendur vísitalan nú í 2309,57 stigum og Dow Jones vísitalan lækkaði um 2,93%. S&P 500 lækkaði um 3,20% og hefur ekki verið lægri í 11 mánuði.

Bloomberg fréttaveitan segir Exxon og Citigroup hafa leitt lækkun dagsins. Viðmælandi Bloomberg segir að afkomutölur fyrirtækja sem nú eru birtar séu mikil vonbrigði og auki á svartsýni manna.

Á móti hverju hlutabréfi sem hækkaði lækkuðu 11 á móti.

Í dag voru kynntar nýjar tölur um samdrátt í þjónustu og veldur það nokkrum áhyggjum á mörkuðum. The Institute for Supply Management Index, sem mælir þjónustuvísitölu og endurspeglar nálægt 90% markaða í Bandaríkjunum féll í dag úr 54,4 stigum niður í 41,9. Að sama skapi lækkuðu þjónustuvísitölur í Evrópu og hafa ekki verið lægri frá árinu 2003.

Þá greinir Bloomberg fréttaveitan einnig frá því að viðskipta- og vörupantanir hafa dregist saman í janúar og hefur það nokkur áhrif á þjónustuvísitölur.