Olíuverð hefur lækkað mikið á Bandaríkjamarkaði í dag, eða um 9,5% þegar þetta er skrifað (kl. 18:30). Lækkunin nemur 8,2 Bandaríkjadölum á tunnu, og kostar tunnan nú 78,4 dali.

Olíuverð hefur ekki verið lægra í heilt ár,  en það er fyrst og fremst áhyggjur af yfirvofandi samdrætti sem valda lækkuninni. Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) lækkaði spá sína fyrir orkuþörf heimsins á þessu ári og hefur ekki spáð minni þörf síðan árið 1993. Spá fyrir árið 2009 var einnig lækkuð.

Olíutunnan kostaði rúma 147 dali í júlí sl. Verðið hefur því lækkað um 46,7% síðan þá.

Ýmis aðildarríki OPEC hafa kallað eftir því að framleiðsla verði dregin saman vegna lækkunar olíuverðs. Samtökin halda neyðarfund í Vínarborg 18. nóvember næstkomandi til að ræða áhrif kreppunnar á olíumarkaðinn.