Alls voru veiddir 6.435 laxar í net í Þjórsá í fyrra. Í Hvítá í Árnessýslu og Ölfusá voru samtals veiddir 4.785 laxar í net. Á landinu öllu voru í heildina veiddir 11.583 laxar í net og þar af var 11.291 veiddur á Suðurlandi samkvæmt skýrslu Veiðimálastofnunar um lax- og silungsveiði 2013.

Svipaða sögu er að segja af netaveiði á urriða og bleikju en af 18.775 urriðum voru 15.150 veiddir á Suðurlandi. Af 15.775 bleikjum voru 11.909 veiddar á Suðurlandi. Langmesta netaveiðin var í Apavatni en þar voru veiddir 10.321 urriðar í fyrra og 7.570 bleikjur.