Mikil reiði ríkir meðal stjórnmálamanna vestanhafs yfir bónusgreiðslum bandaríska tryggingarisans AIG til helstu stjórnenda en sem kunnugt er var félaginu bjargað frá gjaldþroti s.l. haust af bandarískum yfirvöldum.

Alls hefur um 180 milljörðum Bandaríkjadala verið varið til að bjarga félaginu frá gjaldþroti en stjórn félagsins áætlar nú að greiða allt að 165 milljónir dala í bónusgreiðslur til handa stjórnendum og millistjórnendum félagsins.

Larry Summers, helsti efnahagsráðgjafi Barack Obama, forseta Bandaríkjanna sagði bónusgreiðslurnar „svívirðilegar“ í samtali við fjölmiðla vestanhafs og bætti því við að skattgreiðendur hefðu ekki bjargað félaginu til að stjórnendur þess fengju fúlgur fjár í bónusgreiðslur.

Hins vegar séu í gildi samningar við stjórnendur félagsins sem ekki sé hægt að brjóta. Þannig muni þeir fá bónusgreiðslur fyrir árið 2008 en bónusgreiðslur verða skornar verulega niður fyrir árið ár samkvæmt yfirlýsingu frá Ed Liddy, forstjóra AIG.

Summers segir að þrátt fyrir eindregna andstöðu Bandaríkjaforseta og þingmanna gegn bónusgreiðslunum sé lítið hægt að gera til að koma í veg fyrir þær.

„Það er mjög auðvelt að vilja kjöldraga menn og svipta þá þessum greiðslum í hita leiksins. Hins vegar búum við í réttarríki og því ekki hægt að svíkja samninga sem þegar hafa verið gerðir,“ sagði Summers í samtali við Reuters fréttastofuna.

Þá bætti hann því við að Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna hefði reynt allt sem hann gæti samkvæmt lögum til að koma í veg fyrir eða í það minnsta lækka bónusgreiðslurnar.

Það að bónusgreiðslurnar verði minnkaðar fyrir áríð í ár hefur þó lítil slegið á reiði þingmanna í Washington.

„Ætli þeir hafi gert sér grein fyrir því sem koma skyldi þegar þeir skrifuðu undir samninga um bónusgreiðslur,“ sagði Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í Öldungadeild þingsins.

„Ég efa það að þeir hafi séð fyrir sér að skattgreiðendur myndu leggja út fyrir þessum greiðslum. Nú eru skattgreiðendur að greiða sömum mönnum og settu félagið næstum því á hausinn bónusgreiðslur.“