Bjartsýni íslenskra neytenda eykst enn samkvæmt niðurstöðum könnunar Gallup sem birt var í morgun. Væntingavísitala Gallup hækkaði um 9 stig á milli mánaða og hefur hún einungis tvisvar staðið hærra frá því að mælingar hófust í upphafi árs 2001. Það var í mars á þessu ári og í júní 2003. Neytendur telja að efnahags- og atvinnuástandið í núinu sem og eftir sex mánuði sé og verði betra en þeir töldu fyrir mánuði. Þetta segja undirvísitölur Væntingavísitölunnar. Einnig hefur þeim fjölgað sem á næstu sex mánuðum áforma bifreiðakaup og húsnæðiskaup. Þá fjölgar þeim einnig sem ætla í utanlandsferðir á næstu tólf mánuðum.

Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að neysla og fjárfesting íslenskra heimila hefur farið hratt vaxandi að undanförnu. Íbúðafjárfesting hefur tekið við sér, bifreiðasala verið mikil og almenn neysla verið í miklum vexti. Lítið lát virðist ætla að verða á þessu á næstunni. Vaxandi kaupmáttur, hækkandi eignaverð, bætt aðgengi að lánsfjármagni ásamt almennri bjartsýni eru allt þættir sem leggjast á eitt og örva neyslu- og fjárfestingargleði landans um þessar mundir.