Á fyrri árshelmingi þessa árs fluttu 816 erlendir ríkisborgarar til landsins umfram brottflutta eða umtalsvert fleiri en allt árið í fyrra en þá voru þeir 480. Kemur þetta fram í tölum sem Hagstofan birti í morgun. Horfur eru á að árið verði viðlíka eða stærra en árið 2000 sem var metár í þessu tilliti í síðustu efnahagsuppsveiflu en þá fluttu 1.652 erlendir ríkisborgarar til landsins umfram brottflutta. Staðan nú einkennist af þeim miklu stóriðjuframkvæmdum sem hafnar eru og þeim fjölda erlendra starfsmanna sem til þeirra verka er sóttur. Breytingar þessar sjást í tölum Vinnumálastofnunar sem sýna að veitt voru 1.410 atvinnuleyfi á fyrstu fimm mánuðum ársins samanborið við 1.026 á sama tímabili í fyrra.

Í Morgunkornum Íslandsbanka kemur fram að líklegt er að streymi erlends vinnuafls til landsins muni enn aukast á næstu misserum eða samhliða því að framkvæmdir við stækkun Norðuráls fara af stað af fullum þunga og nær dregur hápunkti framkvæmda vegna álvers Alcoa á austurlandi. Sveifla þessi í notkun erlends vinnuafls sýnir aðlögunarhæfni innlends vinnumarkaðar og með hvaða hætti er hægt að mæta miklum framkvæmdum sem þessum með breytingum í framboði vinnuafls og draga þannig úr þenslu- og ruðningsáhrifum framkvæmdanna. Aðlögunarhæfnin gerir það að verkum að minni aðhalsaðgerða er þörf í ríkisfjármálunum sem og í peningamálunum. Frelsi það sem nú er í flutningi vinnuafls á milli Íslands og nágrannalandanna gerir það því að verkum að Seðlabankinn þarf ekki að hækka vexti sína jafn mikið og ella og ríkið þarf ekki að skera niður eins mikið og annars væri á þessum tímum stóriðjuframkvæmda.