Tveir þriðju stjórnenda íslenskra fyrirtækja telja ekkert vandamál að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu, en tæpur þriðjungur telur það nokkurt vandamál. Bendir þetta til þess að ónýtt framleiðslu- og þjónustugeta í hagkerfinu sé töluverð. Er þetta meðal niðurstaðna í könnun sem Samtök atvinnulífsins gerðu meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins í samstarfi við Seðlabanka Íslands.

Staðan er nokkuð mismunandi eftir atvinnugreinum þar sem rúmlega 40% stjórnenda í byggingariðnaði og sérhæfðri þjónustu telja það nokkuð vandamál að bregðast við óvæntri eftirspurn en einungis 13% í verslun. Nánast allir stjórnendur (90%) telja að þessar aðstæður verði óbreyttar eftir sex mánuði.

Tæplega helmingur stjórnenda býst við að hagnaður, sem hlutfall af veltu, á þessu ári verði svipaður og á síðasta ári, og jafnmargir að hann aukist og hann minnki. Horfurnar eru bestar í samgöngum og ferðaþjónustu en lakastar í iðnaði og sjávarútvegi og þar af leiðandi mun lakari á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Horfurnar eru lakari hjá útflutningsfyrirtækjum en öðrum.

Væntingar aukast um framlegð

Heldur fleiri stjórnendur vænta þess að framlegð fyrirtækjanna, þ.e. EBITDA, aukist á næstu sex mánuðum en hún minnki, en helmingur býst við því að hún standi í stað. Þannig búast 30% þeirra við því að framlegð aukist, 48% að hún standi í stað og 22% að hún minnki. Horfurnar eru bestar í samgöngum og ferðaþjónustu og verslun, þar sem 38% stjórnenda búast við aukinni framlegð, en áberandi lakastar í sjávarútvegi þar sem einungis 6% stjórnenda búast við því.