Þriðji orkupakki ESB, sem Viðskiptablaðið hefur fjallað um , verður borinn undir Alþingi til staðfestingar á komandi vikum. Hafni Alþingi pakkanum gæti það haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir EES-samstarfið, að sögn utanríkisráðuneytisins.

Sameiginleg EES-nefnd ESB og EFTA-ríkjanna þriggja í EES (Ísland, Noregur og Liechtenstein) hefur þegar samþykkt orkupakkann með stjórnskipulegum fyrirvara. Felur það í sér að að þjóðþing EFTA-ríkjanna eiga síðasta orðið í samþykkt orkupakkans.

Til þess að þriðji orkupakkinn taki gildi gagnvart EFTA-ríkjunum – sem og EES – þurfa þjóðþing EFTA-ríkjanna allra að samþykkja pakkann. Norðmenn hafa samþykkt pakkann sem og Liechtenstein, sem flytur inn 85% af sinni raforku. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hefur þriðji orkupakkinn ekki verið ræddur formlega í ríkisstjórn.

Ísland æmtir, Noregur hrekkur í kút

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var ályktað að flokkurinn hafni „frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins“. Framsókn tók í svipaðan streng á flokksþingi og „hafnar því að orkulöggjöf Evrópusambandsins verði tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið“.

Ályktanir flokkanna hafa vakið mikla athygli í Noregi, en norskir fjölmiðlar og þingmenn - sem og þingmenn Sjálfstæðisflokksins - hafa margir kosið að túlka þær á þann veg að ríkisstjórn Íslands ætli sér að hafna því að þriðji orkupakkinn verði tekinn upp í EES-samninginn. Um það liggur þó ekkert fyrir, enda hefur ríkisstjórnin ekki tekið afstöðu.

Pakkinn er mikið hagsmunamál fyrir Norðmenn. Noregur er hluti af innri orkumarkaði ESB, ólíkt Íslandi, og annar stærsti útflytjandi á olíu og jarðgasi til ESB, sem gerir Evrópu að mikilvægum markaði fyrir orkuútflutning Norðmanna. Stuðningsmenn pakkans í norska Stórþinginu telja að það væri hálfgert skemmdarverk ef Íslendingar – sem hafa engra hagsmuna að gæta í þessu máli – færu að hafna pakkanum. Það er þó einmitt það sem andstæðingar pakkans vonast til þess að Íslendingar geri, þar sem þeir telja orkupakkann fela í sér fullveldisframsal í orkumálum til ACER, hærra orkuverð og skerta samkeppnishæfni norsks iðnaðar.

Springur EES-samstarfið fyrir sumarið?

Fari það svo að Alþingi hafni þriðja orkupakkanum gæti það haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Engin fordæmi eru fyrir því að EFTA-ríki hafni því að taka upp gerðir í EES-samninginn. Því er margt á huldu um hver áhrif slíkrar ákvörðunar yrðu ef til kastanna kæmi og hver viðbrögð Evrópusambandsins yrðu.

Áhrifin gætu orðið þau að upptöku gerðanna í EES-samninginn yrði frestað. Utanríkisráðuneytið telur þó ekki ólíklegt að áhrifin yrðu meiri en það, samkvæmt svari ráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Þótt það komi ekki fram í svari ráðuneytisins er ekki að efa að slík höfnun gæti valdið óánægju og torveldað samstarf Íslands við Noreg og Liechtenstein, sérstaklega fyrst engir umtalsverðir þjóðarhagsmunir eru í húfi. Það gæti einnig vakið spurningar um stöðu Íslands almennt í EES-samstarfinu.

Rifja má upp að Ísland hefur á undanförnum árum verið leitt fyrir EFTA-dómstólinn vegna samningsbrota og verið gagnrýnt fyrir seinagang við upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og innleiðingu þeirra á Íslandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .