Ingólfur Bender aðalhagfræðingur SI segir ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að lækka stýrivexti vera mjög jákvætt skref í átt að lægri vöxtum.

Í grein sem hann skrifar á vef samtakanna rifjar hann upp að nefndin hafi nú lækkað stýrivexti bankans niður um 1,5 prósentu, eða úr 5,75% niður í 4,25% nú síðan í ágúst á síðastliðnu ári, en þá stóðu þeir hæst í núverandi uppsveiflu. Segir hann ákvörðunina greinilega hafa komið markaðnum á óvart, en eins og Viðskiptablaðið benti á í morgun höfðu bankarnir allir spáð óbreyttum vöxtum.

Kom markaðnum á óvart

Þetta hefur haft umtalsverð áhrif á innlendan fjármálamarkað enda virðist ákvörðunin hafa komið honum á óvart, þar sem vextir, sérstaklega óverðtryggðir, hafa lækkað og hlutabréfaverð rokið upp líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá .

Ingólfur bendir á að þó framsýn leiðsögn bankans sé hlutlaus, og almennt sé tónn bankans svipaður og hefur verið undanfarna mánuði, samanber minnkandi spennu, hjaðnandi verðbólgu og verðbólguvæntingar í samræmi við verðbólgumarkmið, sem sveiflur í gengi krónunnar hafi lítið haft áhrif á, þá hafi leiðsögnin ekki verið haldgóð vísbending um næstu skref undanfarið.

„Þannig að þrátt fyrir hinn hlutlausa tón eru góðar líkur á frekari lækkun stýrivaxta á næstu misserum,“ segir Ingólfur.

Mikil óvissa í kjaramálum og pólitík

„Ljóst er að óvissa á hinu pólitíska sviði, í kjaramálum og í gengismálum er mikil um þessar mundir. Allir þessir þættir munu hafa áhrif á það hversu mikið og hratt peningastefnunefndin mun geta lækkað stýrivexti á næstunni. Raunstýrivextir bankans, metnir út frá mun á núverandi stýrivöxtum og verðbólgu, eru enn talsvert háir og aðhaldið þannig nokkuð.“

Ingólfur segir að ef gengi krónunnar muni veikjast mikið með tilheyrandi aukinni verðbólgu, kunni það að hindra frekari lækkun stýrivaxta. Enn frekari hækkun húsnæðisverðs geti þó vegið þar á móti, að hans sögn, en hann segir að þegar sé farið að draga þar úr hækkunum og líkur á að svo haldi áfram.