*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 8. maí 2013 09:02

Mikil óvissa ríkir um fjárhagsstöðu AFL Sparisjóðs

Óráðstafað eigið fé sparisjóða á að renna í samfélagssjóð við slit, en óvíst er hvort slíkt eigið fé sé til í AFL Sparisjóði.

Ritstjórn
AFL Sparisjóður varð dótturfélag Arion banka við yfirtökuna á Sparisjóði Mýrasýslu.

Mikil óvissa ríkir um fjárhagsstöðu AFLs sparisjóðs og því alls óvíst hvort til staðar verði óráðstafað eigið fé hjá sparisjóðnum sem runnið gæti í samfélagssjóð, að sögn Haralds Guðna Eiðssonar, upplýsingafulltrúa Arion banka. Í samtali við Morgunblaðið segir hann að það verði að koma í ljós þegar frekari vissa hafi skapast um málefni sjóðsins, m.a. lögmæti erlendra lána og skulda sparisjóðsins.

Árið 2009 eignaðist Arion banki um 95% stofnfjár í AFLi, sem er með starfsemi á Siglufirði og Sauðárkróki, við yfirtöku á Sparisjóði Mýrasýslu.

Róbert Guðfinnsson, fjárfestir og fyrrverandi framkvæmdastjóri útgerðarinnar Þormóðs ramma, sagði í grein sem birtist í Morgunblaðinu á mánudag, að það væri óviðunandi að Arion banki nýtti sér styrk sinn til að þvinga AFL sparisjóð til sameiningar, á meðan ekki væri ljóst hve há erlend lán sjóðsins væru.

Sagði hann að ef ef erlend lán Afls reyndust ólögleg myndist umtalsvert óráðstafað eigið fé í sparisjóðnum. Upphæð sú gæti verið allt að einn og hálfur milljarður. Við sameiningu eða slit sparisjóðsins ætti þessi upphæð að fara í samfélagssjóði á Siglufirði og á Sauðárkróki.

Haraldur Guðni segir að það sé skýrt kveðið á um í lögum, að við slit sparisjóðs skuli ráðstafa jákvæðu óráðstöfuðu eigin fé, sé það til staðar, í sérstakan samfélagssjóð sem skal vera sjálfseignarstofnun með sjálfstæða stjórn. Auðvitað verði þetta sá háttur hafður á við sameiningu AFLs og Arion banka.