Hættan sem steðjar að fjármálakerfi evrusvæðisins hefur aukist. Óvissa ríkir um horfurnar og bankar gætu þurft að ráðast í frekari afskriftir á eignum í bókum sínum, segir í skýrslu Evrópska seðlabankans um fjármálastöðugleika sem birtist í gær.

Fyrr í gærmorgun sýndu einnig markaðir með framvirka samninga að fjárfestar höfðu að fullu verðlagt 25 punkta stýrivaxtahækkun Evrópska seðlabankans í næsta mánuði – úr 4% í 4,25%.

Spurningin er því ekki lengur hvort vextir muni hækka –- heldur fremur hversu oft bankinn telji þörf á því að hækka vexti til að stemma stigu við vaxandi verðbólgu á evrusvæðinu.

Verðbólga á ársgrundvelli mælist nú 3,6%. Fram kemur í fjármálastöðugleikaskýrslu seðlabankans að hættan sem steðjar að fjármálakerfi evrusvæðisins hafi aukist, borið saman við ástandið sex mánuðum áður.

„Mikil óvissa ríkir um horfurnar fyrir fjármálastöðugleika,” segir í skýrslu bankans, jafnframt því sem bent er á að þróunin á bandarískum húsnæðismarkaði muni hafa mikið að segja um ástandið næstu misseri.

Þrátt fyrir að húsnæðisverð í Bandaríkjunum hafi nú þegar lækkað umtalsvert – um 15% á landsvísu frá því að það stóð hæst sumarið 2006 – telja flestir hagfræðingar að botninum sé alls ekki náð.

Undir þetta tekur Evrópski seðlabankinn og segir að „húsnæðisverð eigi eftir að lækka meira í verði áður en stöðugleiki næst á markaðnum.”

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .