Mikil magnminnkun á pósti innan einkaréttar Íslandspóst hefur þýtt mikinn samdrátt í tekjum félagsins, en á þessu ári er áætlað að póstmagnið dragist saman um 17%. Þetta kemur fram í svarbréfi Póst- og fjárskiptastofnunnar við beiðni Íslandspóst um hækkun á gjaldskrá innan einkaréttar. Tekjumissir Íslandspóst vegna magnminnkunarinnar er aðalástæða þess að stofnuninn ákvað að heimila 8-11% hækkun á einingaverði Íslandspósts.

Magnminnkunin í fyrra nam 15% auk þess hafi hliðstæður samdráttur orðið á jólakortum eða um 30-35% milli ára. Þá var póstmagn í desember sl. 29% minna en í sama mánuði árið 2017. Tekjusamdráttur Íslandspóst á síðasta ári vegna þessa nam 480 milljónum króna.

Ástæða magnminkunnarinnar eru tilteknar. „Í fyrsta lagi að verð fyrir þjónustuna sé orðið of hátt. Í öðru lagi að sú breyting sem ÍSP gerði þann 1. febrúar 2018 þegar A og B póstur voru sameinaðir í einn flokk með D+3 þjónustu hafi ekki að öllu leyti verið að svara þörfum markaðarins og breytingin þar með aukið magnminnkun meira en ella hefði orðið. Í þriðja lagi að aukning í rafrænni þjónustu hafi verið meiri en félagið hafi gert ráð fyrir,“ segir í bréfinu.

Fleiri ástæður eru líka nefndar til sögunnar. „Ljóst er af þeim tölum um magnminnkun sem ÍSP leggur fram, að sú þróun sem verið hefur á undanförnum árum heldur áfram, þ.e. fyrirtæki sem og opinberar stofnanir draga sífellt úr hefðbundnum bréfasendingum til viðskiptavina sinna. Í staðinn er hins vegar boðið upp á ýmis rafræn samskipti, sem og aðgang að gögnum í gegnum heimasíður fyrirtækja eða island.is. Gera má ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram enda hafa t.d. flest fjármálafyrirtæki sem og opinberir aðilar á stefnuskrá sinni að draga úr pappírsnotkun og heimsendingu á reikningum og yfirlitum og öðrum pósti. Hvort að hægt sé að draga úr þessari þróun að hægja á henni á einhvern hátt er erfitt að segja til um með vissu. Í þessu samhengi er einnig rétt að geta þess að umhverfissjónarmið geta spilað inn í viðhorf sendanda pósts.“