Samkeppnin á lyfjamarkaðnum er mikil þrátt fyrir að um sé að ræða örmarkað, að sögn Hrundar Rudolfsdóttir, forstjóra Veritas Capital.

„Samkeppni hefur aukist verulega á sama tíma og lyfjamarkaðurinn í heild sinni hefur staðið í stað síðan 2009. Okkar helsti keppinautur er Icepharma. Uppbygging þess félags er aðeins öðruvísi en í grunninn eru þetta svipuð fyrirtæki. Það er aðalkeppinauturinn hvað varðar frumlyfin. Síðan hafa sprottið upp fjölmörg fyrirtæki sem flytja inn samheitalyf. Sá tími sem frumlyfin hafa vernd á markaðnum vegna einkaleyfis er alltaf að minnka,“ segir Hrund.

Hún segir ferlið á því hvernig einkaleyfi fyrir lyf er skráð nokkuð breytilegt.

„Í heild hafa frumlyf 10 ár til að klára rannsóknir og svo önnur 10 ár til að koma þeim á markað og ná inn sölu fyrir fjárfestingunni fyrr á ferlinu. Auknar gæðakröfur, aukið flækjustig og aðrar hindranir eru sífellt að minnka tímann sem fyrirtæki hafa á markaði áður en samheitalyfin koma inn. Á Íslandi erum við svo í ofanálag um það bil 18 mánuðum á eftir okkar samanburðarlöndum í að koma lyfjum á markað,“ segir Hrund.

Rætt er við Hrun í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .