Raforkuverð smásala er um þriðjungur af raforkureikningi heimilanna í landinu. Restin af reikningnum samanstendur af dreifingarkostnaði (39%), flutningi (10%) og opinberum gjöldum (21%). Sala á raforku á Íslandi skiptist í tvo aðskilda markaði, stórnotendur og smásölu til almennra nota. Stórnotendur skipa bróðurpartinn af raforkusölu ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar eða um 85%. Stórnotendur eru aðilar sem starfa í orkufrekum iðnaði, til dæmis álverum og gagnaverum, en stórnotendamarkaðurinn er alþjóðlegur samkeppnismarkaður. Landsvirkjun er langstærsti raforkuframleiðandi á Íslandi en fyrirtækið vinnur 73% allrar raforku í landinu. Þetta er meðal þess sem kom fram á morgunfundi Landsvirkjunar um raforkumarkaði sem haldinn var á dögunum.

Hlutur heimilanna tæp 4%

Hlutur smásölu til almennra nota í gegnum Landsvirkjun, flokkurinn sem heimili og flest fyrirtæki í landinu falla undir, er því aðeins 15%. Þar af notar atvinnulífið ¾ og því er hlutur heimilanna í allri raforkusölu Landsvirkjunar einungis tæp 4%. Það eru nokkur fyrirtæki sem sjá um smásölu á raforkumarkaðnum hér á landi. Landsvirkjun stundar ekki smásölu heldur selur fyrirtækið raforku á heildsölumarkaði til smásölufyrirtækja sem selja svo raforku áfram til endanotenda, sem eru fyrirtækin og heimilin í landinu.

Síðastliðið sumar gaf verkfræðistofan Efla út skýrslu um þróun orkuverðs á Íslandi á árunum 2005-2017. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að meðalverð í smásölu til heimila hefur hækkað um 7% á föstu verðlagi á árunum 2007-2017 en á meðan hefur heildsöluverð Landsvirkjunar, sem hlutfall af rafmagnsreikningi heimilanna síðastliðin 10 ár, lækkað úr 31% í 23% árið 2017. Hlutfall raforkuverðs smásala af heildarreikningi heimilis hefur svo lækkað um 2% á þessu tímabili.

Hörð samkeppni á fyrirtækjahluta raforkumarkaðarins

Jón Vilhjálmsson, sviðsstjóri Orkusviðs Eflu og einn af höfundum fyrrnefndrar skýrslu, segir að samkeppni á raforkumarkaði hafi eflst til muna eftir að raforkumarkaðurinn var opnaður með nýjum raforkulögum árið 2005.

„Í lögunum var gerð krafa um að skilja á milli samkeppnis- og sérleyfisþátta. Þá fóru sex fyrirtæki að selja raforku í smásölu en þessi fyrirtæki voru hluti af gömlum fyrirtækjum sem voru inni á raforkumarkaði. Þessi fyrirtæki hafa allar götur síðan verið að keppast sín á milli á markaðnum við að ná notendum til sín í viðskipti. Þessi samkeppni fór vissulega hægt af stað og það var tiltölulega lítinn afslátt að fá þegar maður var að bjóða út raforkunotkun  fyrir  fyrirtæki eða sveitarfélög. En eftir því sem tíminn hefur liðið hefur samkeppnin sífellt aukist og afslættirnir sem er verið að bjóða orðnir mun hærri en á sínum tíma. Fyrirtækin sem eru að selja aðgang að raforkunni eru að berjast hart um þessa viðskiptavini og  þeir hafa mikinn ávinning af því. Núna á síðustu tveimur árum hafa svo tvö ný fyrirtæki komið inn á þennan markað og hafið smásölu á raforku, og við það hefur samkeppnin aukist enn frekar."

Erfiðara ástand fyrir heimilin

Að sögn Jóns er því mikil samkeppni í fyrirtækjahluta almenna raforkumarkaðarins, þó að margir vilji halda öðru fram. Hins vegar sé ástandið erfiðara á heimilishluta almenna markaðarins.

„Meðalheimilið er að nota um það bil 4.500 kílówattstundir á ári og er að borga smásölum um það bil 30 þúsund krónur á ári fyrir það. Fólk er því að greiða tæpar 3 þúsund krónur á mánuði fyrir þessa þjónustu. Það er hægt að ná fram einhverjum hundraðköllum í sparnað með því að flytja sig á milli raforkusala, sem er mjög auðvelt í framkvæmd. Það hefur aukist að heimili séu að skipta um raforkusala en það er þó lágt hlutfall sem hefur gert það enn sem komið er. Það er kannski vegna þess að fólki finnst það hafa lítinn ávinning  af þvi að spara sér  einungis  óverulegar upphæðir á mánuði. Sökum þessa ástands er mikilvægt að stjórnvöld fylgist með þessum markaðshluta til þess að tryggja að heimilin njóti þess einnig að fá hagstætt verð á raforku."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .