Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í vikunni, og vefsíðan Túristi.is greindi fyrst frá, hafa orðið töluverðar breytingar á vetraráætlun Wow air og Iceland Express á næsta ári. Þannig hefur Wow air hætt við flug til Kaupmannahafnar í vetur en ætlar þess í stað að einbeita sér að London og Berlín.

Á sama tíma kom í ljós að Iceland Express hefur hætt við flug til Berlínar í vetur, en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins voru miklar væntingar gerðar til þeirrar flugleiðar. Nánar er fjallað um vetraráætlun íslensku flugfélaganna í blaðinu og ástæður þeirra breytinga sem átt hafa sér stað.

Fyrir utan framangreindan samdrátt munu airberlin, sem flogið hefur frá sex áfangastöðum í Þýskalandi og Austurríki í sumar, Germanwings (tvisvar í viku frá Stuttgart), Lufthansa (tvisvar í viku frá Hamburg), Transavia France (tvisvar í viku frá París), Air Greenland (tvisvar í viku frá Nuuk), Norwegian (þrisvar í viku frá Osló) og Delta Air Lines (sjö sinnum í viku frá New York) öll hætta flugi hingað yfir háveturinn þó þessi félög fljúgi mislangt inn í haustið.

Þá mun easyJet fljúga hingað til lands frá London allt árið en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur flugið til Íslands gengið vonum framar og sætanýtingin verið nær 80%. Það er því borðleggjandi að helsta samkeppnin í vetur verður á flugi til London, þangað sem fjögur félög munu fljúga í vetur.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)