*

þriðjudagur, 26. maí 2020
Innlent 7. janúar 2020 10:39

Mikil sigling á Icelandair

Flugfélagið byrjar daginn með yfir 7% hækkun á hlutabréfamarkaði. Flest bréf hækka, Brim eina sem lækkar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Gengi bréfa Icelandair hækkuðu yfir 7% í fyrstu viðskiptum dagsins en þegar þetta er skrifað hefur eilítið dregið úr og nemur hækkunin 6,78%, í 183 milljóna króna viðskiptum og er gengið komið í 7,88 krónur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær var síðasta ár stærsta ár frá upphafi í flutningum félagsins og flutti það fjórðungi fleiri til landsins en árið áður.

Utan fjöggura félaga sem staðið hafa í stað í viðskiptum dagsins, ef einhver eru, hafa öll félög í kauphöllinni hækkað í morgun utan Brim. Gengi þess hefur lækkað um 2,78%, í þó ekki nema 3 milljóna króna viðskiptum og er gengið þegar þetta er skrifað 38,50 krónur.

Næst mest hækkun hefur orðið á gengi bréfa Haga, eða um 2,54%, upp í 47,42 krónur, í 136 milljóna króna viðskiptum, en þriðja mesta hækkunin er á gengi bréfa Marel, eða 1,63%, sem jafnframt eru í mestu viðskiptunum eða fyrir 475 milljónir króna. Gengi bréfa félagsins þegar þetta er skrifað er 624 krónur.

Stikkorð: Hagar kauphöllin Icelandair Brim flutningstölur