*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 5. apríl 2020 17:02

Mikil sókn í breytilega vexti

Lántökur á breytilegum vöxtum hafa færst verulega í aukana á síðustu misserum.

Ástgeir Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Svo virðist sem íslensk heimili hafi nýtt sér vaxtalækkanir síðustu missera til þess að endurfjármagna eða festa kaup á húsnæði á betri kjörum. Síðasta hálfa árið til loka febrúar hafa nær öll hrein ný lán bankanna til húsnæðiskaupa heimilanna verið á breytilegum vöxtum samkvæmt tölum sem Seðlabankinn birti í síðustu viku yfir hrein ný útlán bankakerfisins sem eru ný lán að frádregnum umfram- og uppgreiðslum eldri lána.

Á síðustu sex mánuðum námu hrein ný húsnæðislán innlánastofnana samtals 62,3 milljörðum króna og minnkuðu lítillega frá sex mánuðunum þar á undan er þá voru um 7,7 milljörðum lægri en á sama tímabili í fyrra. 

Síðasta hálfa árið voru hrein ný óverðtryggð lán 42,8 milljarðar en voru 39,4 milljarðar sem mánuðina þar á undan en 59,9 milljarðar á sama tímabili fyrir ári síðan. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í haust jókst óverðtryggð lántaka verulega frá miðju ári 2017 og fram á mitt ár 2019. Samkvæmt sérfræðingum skýrðist aukin ásókn í óverðtryggð lán bæði vegna óvissu sem ríkti vegna kjarasamninga og stöðu WOW air en þá var einnig bent á að aukin velmegun og kaupmáttur hafi einfaldlega gert fleirum kleift að taka óverðtryggð lán.

Hrein ný verðtryggð lán síðasta hálfa árið námu 19,5 milljörðum króna en námu 23,2 milljörðum sex mánuðina þar á undan en á sama tímabili fyrir ári námu verðtryggðar lántökur tæplega 10,5 milljörðum króna.

Þegar litið er til síðustu 12 mánaða námu hrein ný lán samtals 123,9 milljörðum króna en námu 138,2 milljörðum á sama tíma fyrir ári. Af þeim námu óverðtryggð lán 82,2 milljörðum síðustu 12 mánuði en námu 93,2 milljörðum fyrir ári á meðan hrein ný verðtryggð lán námu 42,7 milljörðum en námu 45 milljörðum á sama tímabili fyrir ári.

Töluverður viðsnúningur 

Sé þróun síðustu missera skoðuð eftir flokkum lána sést skýrt að lántakendur hafa sótt í breytilega vexti umfram fasta vexti. Á síðustu sex mánuðum námu ný lán á breytilegum vöxtum 69,7 milljörðum króna þar sem 51,4 milljarðar voru óverðtryggð lán og 18,3 milljarðar verðtryggð. Á sama tíma voru ný lán á föstum vöxtum samtals neikvæð um 7,3 milljarða þ.e. umfram og uppgreiðslur eldri lána voru hærri en ný lán.

Um er að ræða töluverða breytingu á síðustu misserum en sex mánuðina þar á undan námu hrein ný lán á breytilegum vöxtum 43,6 milljörðum en voru 18,9 milljarðar föstum vöxtum. Mesta breytingin sést svo þegar sama tímabil fyrir ári er skoðað en þá námu hrein ný lán á breytilegum vöxtum 17,1 milljörðum á meðan þau námu tæplega 53 milljörðum á föstum vöxtum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér