Greiningardeild Glitnis greinir frá því að mikil sókn hefur verið í erlend verðbréf síðustu mánuðina sem endurspeglar væntingar um gengislækkun krónunna en einnig hefur sóknin átt sinn þátt í gengislækkuninni.

Íslendingar keyptu erlend verðbréf fyrir 29 milljarða í febrúar og hafa þá aldrei verið meiri frá því að byrjað var að safna slíkum upplýsingum að janúar síðastliðnum frátöldum en þá námu kaupin 33 milljörðum.

Kaup Íslendinga á erlendum verðbréfum á fyrstu tveimur mánuðum ársins nema því tæpum 63 milljörðum samanborið við 7 milljarða á sama tíma í fyrra.

Greiningardeild Glitnis telur ástæðurnar fyrir þessari aukningu vera fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna og umfangsmikil útrásarverkefni fyrirtækja og einstaklinga. Glitnir telur þó að draga muni úr umfangi þessara kaupa á næstunni vegna útlits fyrir að gengislækkun verði minni en áður var talið og erlend verðbréfakaup sýnast því ekki jafn freistandi og áður í þessu samhengi.