Breska hljómplötuverslanakeðjan His Master's Voice, betur þekkt sem HMV, sýndi snarpa söluaukningu á síðasta uppgjörsári félagsins. Sala jókst um 7% yfir 12 mánaða tímabil sem endaði 26.apríl síðastliðinn. HMV á einnig Waterstone's bókabúðirnar. Stjórn fyrirtækisins segir að hagnaður muni einnig aukast. Guardian segir frá þessu í dag.

Þrátt fyrir áhrif lausafjárkreppu fjármálamarkaða á einkaneyslu almennings sýndi HMV söluaukningu upp á ríflega 10% síðustu 16 vikur. Margar aðrar smásölukeðjur sýna þveröfuga afkomu á sama tíma.

Við tíðindin hækkuðu bréf í HMV í kauphöllinni í London um 6%. Hagnaðarspár greiningaraðila hljóða upp á allt frá 46 milljóna punda hagnaði og upp í 58 milljónir. Hagnaður síðasta árs nám 48 milljónum, en í öllu falli verður árangur ársins 2006 ekki bættur, en þá nam hagnaður keðjunnar 98 milljónum punda.