Indverski bílaframleiðandinn Tata Motors skilaði 882 milljóna dala hagnaði á öðrum ársfjórðungi og er það betri árangur en búist hafði verið við, að því er segir í frétt BBC.

Velta fyrirtækisins jókst um 40% á milli ára, en einkum er þar að þakka góðri sölu hjá dótturfyrirtækinu Jaguar Land Rover. Jókst sala hjá síðarnefnda fyrirtækinu um 22% á milli ára. Jaguar Land Rover hefur verið í eigu Tata Motors frá árinu 2008.

Á móti kemur að sala á ódýrari bílum Tata á Indlandi dróst saman um ein 28% á öðrum fjórðungi samanborið við sama tímabil í fyrra.

Gengi hlutabréfa Tata Motors hækkaði um 3% eftir að greint var frá afkomu fyrirtækisins. Í næsta mánuði verður ný útgáfa af Zest bílnum kynnt og vonast stjórnendur fyrirtækisins að hann muni ýta við sölu á Tata-bílum.