Árum saman hafa Þjóðverjar sett sparnað sinn á sparnaðarreikninga í þýskum bönkum þrátt fyrir sífellt lægri innlánsvexti en nú virðist sem dragi úr trú á bönkunum.

Borgar sig ekki að geyma fé í bönkum

„Það borgar sig ekki að geyma féð í bankanum, og þar að auki þarftu að borga skatt af því,“ segir hinn 82 ára gamli eftirlaunaþegi Uwe Wiese.

Keypti hann sér nýlega peningaskáp til að geyma um 53 þúsund evrur, eða andvirði nálega 7 milljónum króna, í sparnað og starfslokagreiðslu.

Neikvæðir stýrivextir hafa áhrif

Lækkun stýrivaxta niður fyrir núllið hefur aukið eftirspurn eftir peningaskápunum. Stærsti framleiðandi skápanna í landinu, Burg-Waechter KG, tilkynnti um 25% aukningu í sölu á skápum á fyrri hluta ársins miðað við árið á undan.

Vitnaði sölustjóri fyrirtækisins Dietmar Schake í „töluverða aukningu í eftirspurn eftir peningaskápum hjá einkaaðilum, fyrst og fremst í Þýskalandi."

Keppinautarnir Tresorbau GmbH og Hartmann Tresore AG tilkynntu einnig um tveggja tölustafa söluaukningu.

Lengri biðtími og meiri framleiðsla

„Peningaskápaframleiðendur eru að starfa við hámarksframleiðslugetu sína,“ sagði Thies Hartmann, framkvæmdastjóri hjá Hamburger Stahltresor GmbH, fjölskyldufyrirtækis sem selur peningaskápa í Hamburg.

Segir hann söluaukninguna hjá fyrirtækinu hafa verið 25% síðan árið 2014. Sagði hann að það tæki orðið lengri tíma að fá pantanir frá framleiðendum, sem sumir hverjir væru nú með starfsmenn á þremur vöktum.

Vilja koma á verðbólgu

Síðan Evrópski seðlabankinn hefur reynt að komast úr hjólum verðhjöðnunar með því að koma aftur á verðbólgu og færðu stýrivexti niður fyrir núllið árið 2014, búast margir við því að þurfa að greiða gjald fyrir að geyma sparnað sinn í bönkum.

Nú þegar þurfa fyrirtæki og stórir einkaaðilar að greiða slík gjöld.

Fyrirtæki geyma meira reiðufé

Bankar og fjármálastofnanir sjálfar eru einnig í auknum mæli að halda í meira reiðufé.

Tryggingafélagið Munich Re AG tilkynnti fyrr á árinu að félagið myndi geyma um 20 milljón evrur í peningaskápum, ásamt gullstöngum sem félagið keypti í miklum mæli fyrir tveimur árum.

Mikil notkun reiðufés og litlar fjárfestingar í hlutabréfum

Almennt setja Þjóðverjar sparnað sinn í litlum mæli í hlutabréf, svo væntingar um að þurfa að greiða gjald fyrir að spara hefur áhrif á marga í landinu. Um 80% af þýskum smásöluviðskiptum eru framkvæmd með reiðufé, sem er um tvöfalt meira en í Bandaríkjunum þar sem hlutfallið er um 46%.

Þjóðverjar hafa jafnframt almennt meira fé í veskjum sínum og draga að meðaltali út fé að andvirði um 30 þúsund króna úr hraðbönkum, meðan Bandaríkjamenn draga fé að andvirði 12 þúsund króna.