Töluverð spenna ríkir vegna uppgjörs Netflix, sem kynnt verður eftir lokun markað í Bandaríkjunum í dag. Það sem af er degi hafa bréf í fyrirtækinu hækkað um tæplega 3%. Á hálfu ári hafa hlutabréf í fyrirtækinu hækkað um 45%.

Sérfræðingar reikna með því að tekjur Netflix á 1. ársfjórðungi verði 2,64 milljarðar dollara. samanborið við 1,96 milljarða fyrir ári. Sérfræðingar eru því að spá 35% tekjuaukningu.

Mikill uppgangur hefur verið hjá Netflix síðustu misseri. Um síðustu áramót voru áskrifendur orðnir 93,8 milljónir. Spár fyrir fyrsta ársfjórðung 2017 gerðu ráð fyrir að áskrifendum myndi fjölga um 5,2 milljónir á fyrstu þremur mánuðum ársins. Samkvæmt því ættu áskrifendur nú að telja 99 milljónir. Sérfræðinga telja þó alveg hugsanlegt að í dag verði tilkynnt að 100 milljóna múrinn hafi verið rofinn.

Markaðsvirði Netflix er nú 63 milljarðar dollara eða 7 þúsund milljarðar króna. Markaðsvirðið hefur ríflega tvöfaldast á tæpum tveimur árum.