Töluverð sveifla var á krónunni á árinu sem er að líða en hún styrktist um 4% á árinu, samkvæmt Hálffimm fréttum Kaupþings [ KAUP ]. Gengi krónunnar var hæst í júlí og var það á svipuðum tíma og úrvalsvísitalan var einnig sem hæst. Þá var gengisvísitalan 110,4 stig en lægsta gildi krónunnar var í byrjun árs þegar gengisvísitalan mældist 128,6 stig. Greiningadeild Kaupþings greindi frá þessu.

Þá segir einnig að í heild hafi gengisvísitalan sveiflast um 15% á árinu, en það er breyting á hæsta og lægsta gildi ársins. Þetta er þó minni sveifla en árið 2006.

Síðustu mánuði ársins 2006 veiktist krónan og kom þar meðal annars til lækkun Fitch á lánshæfismati íslenska ríkisins. Framan af ári 2007 var þróunin síðan fremur til styrkingar og náði sá ferill hápunkti þann 24. júlí í 110,4 stigum. Skýrist það meðal annars af hærri vaxtavæntingum og rífandi gangi í vaxtamunarviðskiptum. Greiningadeild Kaupþings segir áhættufælni fjárfesta hafa farið vaxandi í lok júlímánaðar vegna óvissu á erlendum hlutabréfamörkuðum og krónan tók að veikjast á sama tíma.

Gengi annarra gjaldmiðla veiktist einnig á sama tíma og lágvaxtagjaldmiðlar svo sem japanska jenið styrktust. Hins vegar má segja að krónan hafi staðið veður ótrúlega vel af sér nú á haustmánuðum þar sem til að mynda hlutabréfaverð hefur lækkað töluvert, segir í hálffimm fréttum Kaupþings.