Michael O‘Leary, forstjóri írska flugfélagsins Ryanair, segir mikil vaxtartækifæri fyrir flugfélög í Evrópu eftir að heimsfaraldurinn líður undir lok. Framboð hefur dregist allverulega saman en Ryanair er um þessar mundir stærsta evrópska flugfélagið og má gera ráð fyrir að félagið stækki enn frekar.

O‘Leary áætlar að flugsætum samkeppnisaðila muni fækka um 100 milljónir á næstu átján mánuðum, á síðasta ári nam framboð téðra félaga 500 milljónum sæta. Einnig segir hann Ryanair vera í viðræðum við bæði flugvelli á Spáni og Ítalíu um að fylla laus lendingarpláss sem áður tilheyrðu Norwegian Air.

Í frétt Financial Times um málið er sagt að þau flugfélög sem lifa af hremmingarnar hafi tækifæri til þess að sækja í sig veðrið þegar eftirspurn eykst á ný. Til að mynda hafa bæði Thomas Cook og Flybe farið í þrot en auk þess stendur Norwegian mjög höllum fæti. Dótturfélög Norwegian á Írlandi fengu fyrr í mánuðinum frest fram á næsta ár til að endurskipuleggja fjárhag sinn og bjarga því flugfélaginu enn á ný frá gjaldþroti.

Gert er ráð fyrir að lággjaldaflugfélög nái vopnum sínum á ný fyrr en önnur. Áætlað er að spurn eftir styttri flugferðum og ferðalögum aukist hraðar en eftir viðskiptaferðum. Ryanair áætlar að ferja 38 milljónir farþega á þessu ári sem er fimmtungur af umfangi félagsins 2019.