Stefán Sigurðsson hefur verið forstjóri Vodafone frá því í maí 2014 eftir að hafa starfað um árabil á fjármálamarkaði. Stefán hafði starfað sem framkvæmdastjóri eignastýringar Íslandsbanka frá því í október 2008 áður en hann skipti um vettvang. Á dögunum gekk Vodafone frá kaupsamningi við 365 miðla um kaup á öllum miðlum síðarnefnda félagsins að frátöldu Fréttablaðinu. Kaupin bíða nú samþykkis Samkeppniseftirlitsins, en Stefán segir þau rökrétt framhald af þeirri þróun sem hefur átt sér stað á fjarskiptamarkaði undanfarin ár. Sífellt stærri hluti af tekjum Vodafone komi frá sjónvarpi og samlegðarmöguleikarnir við miðla 365 séu miklir.

Var það ekki talsverð tilbreyting að fara af fjármálamarkaði yfir í forstjórastarfið hjá Vodafone?

„Jújú, og það var að mörgu leyti skemmtilegt að setjast hinum megin við borðið. Fjármálamarkaðurinn var að mörgu leyti góður undirbúningur, maður hefur mikla innsýn inn í fjármál sem eru auðvitað hluti af rekstri fyrirtækja. Maður hefur líka innsýn í það hvernig markaðurinn horfir á fyrirtæki. Þegar maður síðan sest hinum megin við borðið sér maður hlutina út frá rekstri fyrirtækja, þó ég hafi rekið einingu innan banka er þetta öðruvísi og það er mjög spennandi að kynnast fjarskiptageiranum.

Þetta hafa verið mjög skemmtileg viðbrigði, en á endanum snýst þetta í öllum fyrirtækjum um sömu hlutina: mannleg samskipti, að greina umhverfið, nýta tækifærin, leysa vandamál o.s.frv. Að mörgu leyti er meira sameiginlegt með þessum störfum heldur en ekki þó starfsvettvangurinn sé ólíkur.“

Þú hefur væntanlega lært ansi mikið um fjarskiptageirann á þessum tíma. Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart?

„Í rauninni bara hvað fjarskiptageirinn hefur mikil áhrif og snertir á mörgum geirum, maður gerði sér kannski ekki grein fyrir því. Sums staðar getur verið tækifæri fyrir fjarskiptageirann til að stíga inn og breikka sig, gott dæmi um það er auðvitað sjónvarpið og hvernig hlutverk fjarskiptageirans er að stækka þar. Skilin á milli dreifingar á sjónvarpi og fjarskiptaþjónustu eru að verða óljósari, við sjáum þetta líka að hluta til í tölvutækni, hýsingu o.s.frv. Þar er fjarskiptageirinn orðinn ansi áberandi í þeim lausnum sem boðið er upp á.

Þegar maður kynnist þessum geira betur er hann mjög heillandi, það eru sennilega hvergi meiri breytingar í geira sem er samt talsvert mikilvægur innviðageiri. Það eru mikil tækifæri en líka stöðug samkeppni og það er því aldrei dauð stund í þessum geira, sem er mjög skemmtilegt.“

Mikil tækifæri með kaupum á 365

Kaup ykkar á 365 miðlum (að frátöldu Fréttablaðinu) hafa vakið mikla athygli. Hvað liggur að baki þessum kaupum?

„Við heyrðum af því að það gæti verið áhugi hjá eigendum 365 á að selja fyrirtækið. Það er talsvert mikil samlegð á milli þessara félaga þar sem þörf er á tæknilegri dreifingu á því sem við erum að kaupa út úr 365. Við höfum mikla möguleika í dreifingu og höfðum verið að byggja okkur upp í sjónvarpi. Sumir halda að við þekkjum þennan geira ekki neitt, en við höfum meðal annars verið að vinna mjög mikið í sjónvarpi og uppbyggingu þar. Í raun hefur smásölusjónvarp verið okkar hraðast vaxandi tekjustofn. Það má segja að við höfum byrjað að skoða þetta út frá þeirri nálgun og svo fer maður dýpra og dýpra í verkefnið þangað til okkur var farið að lítast vel á þetta. Við trúum að þarna séu mikil tækifæri fyrir okkur, bæði hvað varðar að lækka kostnað hjá keyptum einingum og líka til að sækja fram.“

Upphaflega voru áformin ekki að eignast Vísi og fréttastofu Stöðvar 2. Hvers vegna breytist það og þið ákveðið að taka yfir þessa stóru fjölmiðla?

„Þegar ég fór inn í viðræðurnar spurði ég mig hvar þessi skil lægju. Ég held ég hafi aldrei tjáð mig nákvæmlega um það en ég nefndi að þetta yrði skoðað. Þegar við förum að skoða þetta nánar, þá eru fréttirnar það mikilvægur hluti efnisins á þeim miðlum sem við erum að kaupa. Stöð 2, Bylgjan og Vísir byggja öll á fréttum og það má segja að ljósvakahlutinn sé að verða stærri hluti af því efni sem birt er á Vísi. Þannig er samlegð Vísis við keyptar einingar mikil og þetta er auðvitað spennandi og sterkur miðill. Vefmiðlar og stafrænir miðlar vaxa hraðar en aðrir miðlar og okkur fannst þetta eiga mjög vel saman. Ég held að þetta sé bara sterkari heild á eftir.“

Nánar er rætt við Stefán í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .