Gífurleg tækifæri gæti beðið Íslendinga vegna hraðrar uppbyggingar á Grænlandi en margt bendir til þess að landsframleiðsla á Grænlandi verði innan fárra ára meiri en hér á landi.

Þetta kom fram á morgunverðarfundi VÍB um hvaða tækifæri fyrirsjáanlegar breytingar á norðurheimskautssvæðinu geta skapað fyrir þjóðir á norðurslóðum og hvernig Íslendingar geta tekið þátt í þeim tækifærum sem haldinn var í morgun.

Svend Hardenberg, sveitarstjóri Qaasuitsup þar sem nær öll olíuleit Grænlendinga fer fram,  og stofnandi Greenland Invest, hélt erindi um fjárfestingartækifæri á Grænlandi og heildarfjárfestingarþörf þar í landi.

Hardenberg sagði að helsta áskorun Grænlendinga væri sú að auka hagvöxt í landinu og tryggja um leið að Grænlendingar myndu njóta þess hagvaxtar. Mörg stór og umfangsmikil verkefni eru ýmist farin í gang eða við það að fara í gang á Grænlandi, s.s. námugröftur, olíuvinnsla, bygginga álvera og fleira. Allt kallar þetta á miklar fjárfestingar í innviðum svo sem flugvöllum, vegum, höfnum o.s.frv.

Á meðal fyrirhugaðra framkvæmda er álver Alcoa í Maniitsoq. Bygging álversins mun kalla á stóra vatnsaflsvirkjun og flutninganet fyrir orku en talið er að heildarverðmæti uppbyggingarinnar sé um 2,3 milljarðar danskra króna. Þá hyggst breska fyrirtækið London Mining hefja námuvinnslu í járngrýti á vesturströnd Grænlands en sú fjárfesting hljóðar upp á um 13,8 milljarða danskra króna. Þessu til viðbótar eru verið að undirbúa verkefni sem fela í sér auknar fiskveiðar, vatnsútflutning og fleira.

Í erindi Hardenberg kom einnig fram að stefnt væri að uppbyggingu gagnvera og lagningu sæstrengja. Þá væri stefnt að því að reisa 100 herbergja hótel í Nuuk, nýjar stjórnarráðsbyggingar og fleiri verkefni væru í bígerð.

Heildarverðmæti fjárfestinga er nú um 40,6 milljarðar danskra króna. Hardenberg sagði þó að skortur væri á frumfjárfestum til að taka þátt í verkefnum í Grænlandi og því væru mikil tækifæri til staðar fyrir þá sem hygðust fjárfesta í landinu.