John Thomas hefur setið í stjórn Icelandair síðan í mars í fyrra, rétt um það leyti er heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á af fullum þunga. Hann býr yfir áratugareynslu af flugrekstri, meðal annars sem forstjóri Virgin Australia Airlines og síðar ráðgjafi fjölmargra flugfélaga.

Thomas telur ekki að Icelandair muni koma illa sett út úr faraldrinum vegna skulda, þrátt fyrir að engar skuldir félagsins hafi verið færðar niður, eins og gert var hjá sumum keppinautum þess. Reksturinn hafi verið á réttri braut áður en faraldurinn skall á.

„Við fórum inn í faraldurinn með sterkan efnahagsreikning,“ segir Thomas, en félagið var með eigið fé upp á 482 milljónir dala – yfir 58 milljarða króna á þeim tíma – og 29% eiginfjárhlutfall í árslok 2019. Því hafi hlutafjáraukning farið fram í þeim tilgangi að bæta stöðuna fremur en að freista þess að semja um hreinar höfuðstólslækkanir eða niðurfellingar skulda, sem þó var samið um að lengja í eftir þörfum.

Thomas sér mikil tækifæri í auknu hlutverki Íslands og Keflavíkurflugvallar sem tengimiðstöðvar milli Bandaríkjanna og Evrópu. Þar geti Icelandair spilað lykilhlutverk. „Bæði evrópsk og bandarísk flugfélög hafa, í kjölfar faraldursins, dregið úr flugferðum frá bandarískum stórborgum til minni borga í Evrópu. Þess í stað fljúga þau helst á breiðþotum milli stórborga sitt hvorum megin við Atlantshafið, og samstarfsaðilar sjá svo um að koma farþegum til minni borga í tengiflugi. Þarna er mikið tækifæri fyrir Keflavíkurflugvöll og Icelandair, sem bein tenging milli bandarísku stórborganna og þeirra minni í Evrópu,“ segir hann og nefnir Norður-Evrópu sérstaklega, sökum landfræðilegrar legu Íslands.

Eini samstarfsaðili easyJet eftir brotthvarf Norwegian
Annað sem gæti komið sér afar vel fyrir Icelandair og fleiri flugfélög þegar fram líða stundir er brotthvarf Norwegian air, sem var orðið afar fyrirferðarmikið í flugferðum yfir Atlantshafið, af þeim markaði. „Með því hefur flugframboð á þeim markaði dregist verulega saman og því eftir meiru að slægjast fyrir þá sem eftir standa.“

Hvað varðar Icelandair sérstaklega, hafi Norwegian verið með samstarfssamning við breska lággjaldaflugfélagið easyJet, sem fól í sér að hið síðarnefnda beindi sínum viðskiptavinum sem fljúga vildu yfir Atlantshafið í viðskipti við hið fyrrnefnda. Í september síðastliðnum undirritaði Icelandair sambærilegan samning við easyJet, og er nú eini slíki samstarfsaðili easyJet eftir brotthvarf Norwegian af þeim markaði. „EasyJet eru með mest heimsóttu ferðaleitarvél í Evrópu, sem fær um og yfir 400 milljónir heimsókna á ári.“

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að skrá sig í áskrift hér .