Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, sagði í samtali við RÚV í morgun að þjóðin hafi ekki efni á byggingu nýs spítala. Hún sagði ekki nokkurt vit vera í því að fara að byggja hér nýjan steinsteypukubb upp á 60-80 milljarða á meðan starfsfólk sé að ganga út af Landspítalanum.

„Staðan er þessi að við þurfum að stilla okkur af miðað við raunveruleikann. Það er halli á fjárlögum, við skuldum mjög mikið og við erum á yfirdrætti,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður fjárlaganefndar, í samtali við VB.is. „Það er staðan og það eru engin efni til að lofa útgjöldum. Allir þeir sem lofa útgjöldum hljóta að þurfa að segja hvar við ætlum að sækja peningana,“ bætir hann við.

Guðlaugur segir hins vegar löngu kominn tíma á nýjan spítala. „Það er fyrir lifandi löngu kominn tími á að endurnýja húsnæðið,“ segir hann. Hver sem vilji kynna sér það mál geti kynnt sér það. Mikill kostnaður falli til vegna þess að spítalinn sé á mörgum stöðum og mikill tími fari í flutninga. „Það er hagkvæmara að hafa allt á einum stað og þar erum við að tala um rekstarhagkvæmni. Það er dýrara fyrir þjóðarbúið að hafa þetta á mörgum stöðum,“ segir Guðlaugur Þór.