Fyrsta áfanga í útboði á hlutum Kaupþings banka í fjárfestingafélaginu Exista lauk í gær þegar 300 milljónir hluta voru seldir til fagfjárfesta á útboðsgenginu 21,5, samvkæmt upplýsingum frá bankanum.

Heildarandvirði útboðsins var 6,4 milljarðar króna. Áður hafði Kaupþing tilkynnt að 150 milljónir hluta yrðu seldir á útboðsgenginu 19,5 til 21,5, en að verðið færi eftir eftirspurn.

Vegna mikillar eftirspurnar var ákveðið að nýta heimild til að tvöfalda útboðið og alls voru seldir 300 milljón hlutir eða tæplega 3% heildarhlutfjár í stað 1,38% eins og áður stóð til. Ekki var hægt að nálgast upplýsingar um hverjir kaupendur voru þegar Viðskiptablaðið fór í prentun, en lágmarks áskrift var 30 milljónir króna.

Næsta skref í undirbúningi fyrir skráningu Exista verður úttboð til starfsmanna og almennra fjárfesta, þegar 130 milljón hlutir verða seldir á genginu 21,5 krónur hluturinn.