Kaupþing banki hefur sótt 500 milljónir evra (42 milljarðar íslenskra króna) á sambankalánamarkað í Evrópu, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Lánið var hækkað úr 250 milljónum vegna mikillar umframeftirspurnar og verður undirskrift í næstu viku.

Lánakjörin eru í samræmi við lánshæfismat bankans og hafa neikvæðar skýrslur greiningardeilda erlendra banka ekki haft áhrif á vaxtakjörin, segja sérfræðingar. Langtímalánshæfismat bankans er A1 hjá Moody's Investors Service.

Lánið er í tveimur hlutum, til þriggja og fimm ára. Vaxtakjörin á þriggja ára láninu eru 17,5 punktar yfir EURIBOR, sem eru millibankavextir í Evrópu. Fimm ára lánið borgar 23,5 punkta yfir EURIBOR.

BayrneLB, DZ Bank og HSH Nordbank höfðu umsjón með sambankaláninu og sáu um sölu þess til annarra banka á sambankalánamarkaði.