Tæplega tvöföld umframeftirspurn var eftir tveimur flokkum sértryggðra skuldabréfa sem Íslandsbanki hefur gefið út og skráð í Kauphöllina.

Bankinn gaf bréfin út í desember í fyrra og stefndi á að gefa út tvo flokka sértryggðra skuldabréfa til 7 og 12 ára fyrir 2,5 milljarða króna. Tilboð í flokkana námu hins vegar 4,75 milljörðum króna. Kaupendur eru fagfjárfestar.

Fram kemur í tilkynningu frá Íslandsbanka að hann hafi sett upp 100 milljarða króna fjármögnunarramma fyrir sértryggð skuldabréf og stefni á að gefa út bréf fyrir 10 milljarða króna á hverju ári.

Bréfin eru gefin út samkvæmt lögum um sértryggð skuldabréf þar sem strangar kröfur eru gerðar til útgefenda. Tryggingasafnið að baki skuldabréfinu skal standast sérstök vikuleg álagspróf með tilliti til vaxta og gengis gjaldmiðla. Þá hefur Fjármálaeftirlitið sérstakt eftirlit með útgáfunni, auk þess sem sjálfstæður skoðunarmaður sinnir eftirliti, að því er segir í tilkynningunni.

Kauphöllin - Nasdaq - Íslandsbanki
Kauphöllin - Nasdaq - Íslandsbanki
© BIG (VB MYND/BIG)
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, og Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar