Hlutafjárútboði Marel hf. lauk í gær, en í boði voru 75 milljónir nýrra hluta á genginu 74 krónur fyrir hvern hlut og var heildarsöluvirði útboðsins því 5,5 milljarðar króna, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Alls óskuðu fjárfestar eftir að kaupa hluti í Marel fyrir ríflega 35,8 milljarða króna sem er umtalsvert umfram heildarmarkaðsverð félagsins. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans hafði umsjón með útboðinu fyrir hönd Marel.
Eftir útboðið fjölgar hluthöfum Marel úr 1100 í 3700, 25 lífeyrissjóðir gerast hluthafar og erlend eignaraðild verður um 15%

Það er ánægjulegt að sjá þann stuðning sem fjárfestar eru tilbúnir að veita fyrirtækinu til að uppfylla þá framtíðarstefnu sem starfsmenn hafa mótað á undanförnum árum. Framundan eru spennandi tímar þar sem unnið verður úr þeim fjölmörgu tækifærum sem fyrirtækið stendur frammi fyrir," segir Hörður Arnarson, forstjóri Marel.

Hlutafjárútboðið var þrískipt: Útboð til forgangsréttarhafa, fagfjárfesta og almennings.

Í útboði til forgangsréttarhafa voru 30 milljónir nýrra hluta í boði eða 2.2 milljarðar að söluvirði. Alls óskuðu forgangsréttarhafar eftir að kaupa hluti fyrir 5.1milljarð króna að söluvirði, sem er ríflega tvöföld eftirspurn.
Í útboði til almennings voru 15 milljónir nýrra hluta í boði eða 1.1 milljarður króna að söluvirði. Alls tóku 2.845 manns þátt í almenna hluta útboðsins og óskuðu þeir eftir að kaupa hluti í Marel fyrir samtals 1.4 milljarða króna, sem er um 28% umframeftirspurn.

Í útboði til fagfjárfesta voru 30 milljónir nýrra hluta í boði eða 2.2 milljarðar að söluvirði. Alls óskuðu fagfjárfestar eftir að kaupa 29,3 milljarða króna að söluvirði sem er ríflega þrettánföld eftirspurn. Á meðal kaupanda í fagfjárfestahluta útboðsins voru allir helstu lífeyrissjóðir landsins auk verðbréfasjóða og fjárfestingafélaga.

Heildarfjöldi hluta í Marel eftir útboðið og afhendingu hluta til Scanvægt Holding ApS verður 367.080.732 hlutir. Eyrir Invest hf verður áfram stærsti einstaki hluthafi Marel með 25% hlut, Landsbanki Íslands verður með 24% hlut og Scanvægt Holding ApS með 14% hlut.