Landsvirkjun hefur sent út fréttatilkynningu til fjölmiðla í tilefni þess að Skipulagsstofnun hefur gefið út álit sitt á mati á umhverfisáhrifum vindmyllugarðs við svokallaðann Búrfellslund.

„Í niðurstöðum álitsins kemur fram að Skipulagsstofnun telji tilefni til að endurskoða áform um uppbyggingu 200 MW vindorkuvers norðan við Búrfell,“ segir í tilkynningunni.

Skoða umfangsminni uppbyggingu

„Að mati stofnunnarinnar gefa mikil umhverfisáhrif tilefni til að skoða hvort umfangsminni uppbygging eigi betur við á þessu svæði.

Vindskilyrði á svæðinu eru hagstæð fyrir vindorkuver. Þar eru fyrir sex vatnsaflsvirkjanir, net háspennulína ásamt tilheyrandi innviðum.

Í matsskýrslu  voru skoðuð heildaráhrif af 200 MW vindlundi þar sem að uppbygging færi fram í smærri áföngum. Með því móti fengist mat á áhrifum vindmylla á svæðinu áður en endanlega stærð vindlundar væri ákveðin.

Mikil sjónræn áhrif

Vindmyllur eru há mannvirki og sjónræn áhrif þeirra mikil, en að fullu afturkræf.

Við framkvæmd matsins leitaði Landsvirkjun til erlendra sérfræðinga til að tryggja að verkefnið væri unnið samkvæmt bestu mögulegu aðferðum sem unnið er eftir erlendis.

Í áliti sínu bendir Skipulagsstofnun á atriði sem betur mætti fara og mun Landsvirkjun nýta þær ábendingar.

Vindorka er endurnýjanlegur og afturkræfur orkukostur sem er í stöðugri þróun á heimsvísu. Nú þegar mati á umhverfisáhrifum fyrsta vindorkuvers á Íslandi er lokið er eðlilegt að dreginn sé af því lærdómur.

Landsvirkjun mun nýta sér þá þekkingu og reynslu sem fram hafa komið í ferlinu til frekari þróunar og undirbúnings vindorku á Íslandi.“