Mikil umræða hefur verið síðustu vikur um samruna og framtíðarútlit á þýska bankamarkaðnum. Nýjustu ummælin í þessa átt koma frá forstjóra Deutsche Bank í Þýskalandi, Jürgen Fitschen. Wirtschaftswoche hefur eftir honum að æskilegt væri að sameina stærstu banka Þýskalands þannig að fjórir þeir stærstu rynnu saman í tvo leiðandi banka sem gætu látið til sín taka í Evrópu.

Samruni í evrópsku samhengi

Fjórir stærstu bankarnir eru Deutsche Bank, Commerzbank, Postbank og Dresdner Bank, en Fitschen útfærði ekki nánar hvernig hann sæi samrunann fyrir sér. Hann sagði hins vegar að samruni yrði að eiga sér stað í Þýskalandi því að bankar nágrannalandanna hefðu stækkað.

Wirtschaftswoche hefur eftir forstjóra Postbank, Wolfgang Klein, að ekki sé nauðsynlegt að renna fjórum stærstu saman í tvo en samruna yrði að skoða í evrópsku samhengi. Í fréttinni segir að kaupendur að Postbank bíði þegar í röðum, en Postbank er dótturfélag Deutsche Post og sá banki sem hefur flest útibú í Þýskalandi. Commerzbank og Deutsche Bank hafa þegar sýnt áhuga á að kaupa bankann.

Þess má geta að FL Group á 1,15% í Commerzbank samkvæmt tilkynningu frá 21. janúar sl., en félagið hefur minnkað hlut sinn á síðustu mánuðum. Í lok 3. fjórðungs 2007 átti FL Group 4,3% í Commerzbank.

Líklegt að Dresdner Bank verði seldur í tvennu lagi

Herbert Walter, forstjóri Dresdner Bank, sem er í eigu Allianz, segir að samruni þýsku bankanna væri örugglega skref í rétta átt en mundi ekki létta á þrýstingi vegna alþjóðlegrar samkeppni. Fjármálastofnanir í einkaeigu verði að sérhæfa sig meira og verða skilvirkari. Allianz tilkynnti nýlega að dótturfélagið Dresdner Bank yrði skipt upp í viðskiptabanka- og fjárfestingarbankahluta. Í Wirtschaftswoche segir að líklegt sé að hlutarnir verði seldir hvor í sínu lagi.