Mikil umsvif einkenndu í hagkerfið á fyrsta ársþriðjungi og reyndist heildarvelta 17,1% meiri að nafnvirði en á sama tímabili í fyrra samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun og byggðar eru á virðisaukaskattskýrslum, segir greiningardeild Glitnis.

?Umtalsverður vöxtur þjóðarútgjalda virðist því hafa ríkt á tímabilinu í samanburði við árið áður.
Afar mikil fjárfesting setur svip sinn á hagkerfið um þessar mundir. Velta í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð jókst geysilega á fyrsta ársþriðjungi eða um rúm 40% frá sama tímabili í fyrra og nam um 53 milljörðum króna. Svo mikill vöxtur heldur tæpast lengi áfram og vænta má þess að úr honum dragi verulega á næsta ári og samdráttur taki jafnvel við þegar íbúðamarkaður kólnar og stóriðjuframkvæmdum lýkur," segir greiningardeildin.

Í ofanálag hefur mikil trú neytanda og vaxandi kaupmáttur áhrif á einkaneyslu, á fyrstu mánuðum ársins, og er birtingaform þess mikil veltuaukning.

?Til dæmis jókst velta í bílasölu og viðhaldi um 22,3% á fyrsta ársþriðjungi samanborið við sama tímabil í fyrra og nam veltan 31 milljarði króna. Smásala nam hins vegar samtals 71 milljarði og jókst um 11% frá sama tímabili í fyrra," segir greiningardeildin.

Hún segir að útflutningsfyrirtæki hafi átt erfitt uppdráttar þar til gengi krónunnar féll í lok febrúar og studdi þar með við tekjuhlið hagkerfisins, en lítill afli og fleira vinnur þó áfram á móti þeim.

?Reyndist veltuaukning í fiskveiðum þó nokkur á fyrsta ársþriðjungi en veltan var 66,1 milljarða króna og jókst hún um 16,5% að nafnvirði frá sama tímabili í fyrra. Framleiðsla málma jókst á hinn bóginn um rúm 40% og nam tæpum 18 milljarða króna enda hækkaði álverð á heimsmarkaði mikið á seinni hluta síðasta árs. Mikillar veltuaukningar má vænta í þeim flokki ef áætlanir ganga eftir og álframleiðsla hefst á Austurlandi á næsta ári, sér í lagi ef álverð helst hátt," segir greiningardeildin.

Velta í fjármálaþjónustu jókst um 25,4% frá sama tímabili í fyrra og nam 10,8 milljörðum króna. ?Velta í flugsamgöngum var tæpir 20 milljarðar króna og jókst um 4,7% frá sama tímabili í fyrra. Mikill vöxtur var í hótel og veitingahúsarekstri eða rúmlega 20% og nam veltan 10,8 milljarðar króna," segir greiningardeildin.