Þann 21. júní síðastliðinn voru undirritaðir samningar um uppbyggingu á 10 hektara landi á Ártúnshöfða. Um er að ræða stærsta uppbyggingarsvæðið á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum en áætlað er að byggja 250 þúsund fermetra á lóðunum sem nú er samið um, eða um 2.000 íbúðir auk atvinnuhúsnæðis. Er þetta fyrsta skrefið í uppbyggingu á svæðinu en þegar hverfið verður fullbyggt verða þar 5.900 íbúðir auk atvinnuhúsnæðis. Til samanburðar var 5.781 íbúð í Garðabæ um síðustu áramót og um 6.300 íbúðir í Vesturbæ Reykjavíkur.

Mikil umbreyting framundan

Í dag er starfsemi á Ártúnshöfða blanda af grófum iðnaði, léttum iðnaði, verslun og þjónustu. Grófur iðnaður mun víkja fyrir uppbyggingu íbúða og almennri atvinnustarfsemi og þjónustu. Má þar helsta nefna Malbikunarstöðina Höfða, sem er í eigu Reykjavíkurborgar. Steypustöðvarnar BM Vallá og Steypustöðin munu einnig víkja en óvíst er hvenær. Þá hefur Ísaga byggt nýja verksmiðju á Vatnsleysuströnd sem mun leysa af starfsemina á Ártúnshöfða.

Segja má að hverfið hafi nú þegar tekið breytingum í átt til blandaðrar byggðar. Sem dæmi má nefna að í gamla Hampiðjuhúsinu við Bíldshöfða, þar sem Bílanaust og N1 var síðar, er rekin stærsta heilsugæslustöðin á höfuðborgarsvæðinu auk annarrar þjónustu.

Reykjavíkurborg stærsti eigandinn

Eins og fyrr segir verður Ártúnshöfði stærsta uppbyggingarsvæðið á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Mjög lág nýting er á svæðinu sem  auðveldar uppbyggingu auk þess sem stór hluti svæðisins er í eigu þeirra aðila sem undirrituðu samningana á föstudag. Stærsti einstaki eigandi landsins er Reykjavíkurborg en fasteignarþróunarfélagið Klasi fyrir hönd Elliðaárvogs ehf. og Heild fasteignafélag fyrir hönd Árlands ehf. eru stærstu lóðarhafar fyrir utan borgina.

Miðað við fyrirliggjandi nýtingarhugmyndir er áætlað að byggingarmagn á lóðum Klasa verði um 167.000 fermetrar og þar af 116.000 fermetrar fyrir íbúðarhúsnæði og 51.000 fermetrar fyrir atvinnuhúsnæði. Áætlað byggingarmagn á lóðum Árlands er um 80.000 m2. Byggingarmagn mun þó ráðast af endanlegu samþykktu deiliskipulagi.

Klasi er meðal annars að byggja upp 620 íbúða hverfi í nágrenni Smáralindar sem nefnist 201 Smári. Stærstu eigendur Klasa eru Tómas Kristjánsson og Finnur Reyr Stefánsson,  en þeir eiga meðal annars 5,48% hlut í Regin fasteignafélagi í gegnum félag sitt, Siglu ehf. Heild fasteignafélag er einnig stórtækt á lóða- og atvinnuhúsnæðismarkaðnum. Félagið sér um rekstur eigna tveggja fagfjárfestasjóða sem eru í stýringu hjá Gamma. Félagið fer með 15 atvinnulóðir, 3 þróunarverkefni og lóðirnar á Ártúnshöfða þar á meðal, auk 32 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði.

Ný hugsun í samgöngumálum mikilvæg forsenda

Vinna við deiliskipulag hefur staðið yfir síðasta árið og gert er ráð fyrir að skipulag fyrir fyrsta áfanga liggi fyrir í lok þessa árs og framkvæmdir geti hafist á árinu 2021 og jafnvel strax á næsta ári. Ráðgert er að fyrsti áfangi borgarlínu verði m.a. milli miðbæjarins og Ártúnshöfða. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir að spennandi verði að sjá svæðið ganga í endurnýjun lífdaga en segir þó að breytingar í samgöngumálum séu forsenda þess að hægt verði að þróa svæðið á kraftmikinn hátt. „Fyrir mér er þetta eitt mest spennandi uppbyggingarsvæði í borginni og í raun á höfuðborgarsvæðinu en það er skilgreint sem eitt af þremur lykiluppbyggingarsvæðum í aðalskipulaginu. Í þeim greiningum sem við höfum unnið undanfarin ár þá kemur í ljós að í raun ber svæðið mun meiri uppbyggingu en við bjuggumst við, að því gefnu að samgöngurnar séu hugsaðar upp á nýtt. Í því felst meðal annars að það komi brú yfir Elliðaárvoginn og þá er okkur kleift að búa til þétt, líflegt og fjölbreytt borgarumhverfi á svæðinu.

Ártúnið er mjög vel staðsett með vegi til allra átta en eins og gildir í raun um öll svæði austan Elliðaánna, þá verður að hugsa samgöngurnar upp á nýtt þar sem stofnleiðir eins og Miklabrautin ber ekki mikið meiri umferð á háannatímum. Það hefði alltaf verið hægt að breyta landnotkun og byggja að einhverju marki en borgarlína og ný hugsun í samgöngumálum er forsenda þess að það sé hægt á þessum skala.

Það sem kom okkur á óvart þegar var verið að skoða þetta svæði er hvað það er lítil nýting á svæðinu. Það eru mjög víða stórir auðir blettir og í raun ótrúlega mikið af óbyggðu svæði inni í miðri borg í bland við byggingar sem sumar eru úr sér gengnar og verður spennandi að sjá svæðið ganga í endurnýjun lífdaga.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .