Talsverð uppbygging er um þessar mundir í miðbæ Mosfellsbæjar. Nú síðast var greint frá því í deiliskipulagi miðbæjar Mosfellsbæjar að gert væri ráð fyrir 65 íbúðum á sameinuðum lóðum. Íbúðirnar eru ætlaðar fólki yfir 50 ára.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að alls sé um að ræða þrjú svæði sem eru í uppbyggingu í miðbæ Mosfellsbæjar. „Það er nú þegar hafin uppbygging í Þverholtinu þar er verið að byggja 50 leiguíbúðir. Svo eru tveir staðir, annars vegar í Háholtinu á svokölluðum Kaupfélagsreit. Þar eru í uppbyggingu 65 íbúðir sem eru ætlaðar 50 ára og eldri. Svo er hins vegar þarna á móti, bæði í Háholti og Bjarkarholti 140 nýjar íbúðir sem fara á markað. Það eru um það bil 250 nýjar íbúðir sem annað hvort fara í uppbyggingu á næstunni eða eru í uppbyggingu, allt í miðbænum,“ segir Haraldur.

Í Helgafellshverfinu er um 500-600 íbúðir sem eru annað hvort tilbúnar eða eru í uppbyggingu þar. „Það er heilmikið að gerast í Mosó,“ bætir Haraldur við.

Í ítarlegri úttekt sem Viðskiptablaðið gerði á uppbyggingunni í Mosfellsbæ, á seinni hluta síðasta árs, kemur fram að á næstu árum verður langmesta íbúðauppbyggingin á höfuðborgarsvæðinu í Mosfellsbæ.  Um síðustu áramót voru ríflega 3 þúsund íbúðir í bænum en á fimm til sex árum er gert ráð fyrir að byggðar verði tæplega 1.420 íbúðir. Þetta þýðir að íbúðum mun fjölga um 47% í bænum á þessu tímabili.