Ein helsta ástæða fyrir breytingu lánshæfismatsfyrirtækisins Moodys á mati sínu á fjárhagslegum styrkleika Glitnis byggist á þeirri skoðun Moodys að áhætta í rekstri bankans hafi aukist undanfarið. Er þar sérstaklega bent á breytingar á eignarhaldi bankans og aukningu útlána til aðila tengda bankanum, en Moodys segir lán til tengdra aðila hafi aukist um 60% á liðnu ári.

Einnig bendir Moodys á að 31% af útlánum bankans séu nú tengd fasteignakaupum í verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Svo hátt hlutfall segir matsfyrirtækið sé óþægilegt á sama tíma og vextir eru að hækka á öllum Norðurlöndunum.

Moodys bendir á að nú ráði tveir stærstu hluthafarnir í bankanum, FL Group og Milestone, yfir 50% hlutafjár í og þeir ráði því mjög miklu stefnu og stjórn bankans. Sú staðreynd geti haft áhrif á sjálfstæði bankans og komið niður á hagsmunum minni hluthafa og gæti verið til þess fallinn að styðja við hagsmuni eigenda á kostnað lánadrottna bankans. Greiningardeild Landsbankans bendir á í Vegvísi sínum að aukin áhættusækni bankans gæti verið túlkuð á þann veg að það þjóni fremur hagsmunum hluthafa en kaupendum skuldabréfa bankans.

Moodys horfir einnig til tíðra fyrirtækjakaupa bankans að undanförnu og mikilvægi þess að vel takist til við að tryggja arðsemi þeirra og samþættingu við aðrar einingar bankans.