Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðinu þar sem hann segir m.a. frá nýrri nálgun félagsins á fjárfestadaga. Í stað hefðbundins fjárfestadags með þéttri dagskrá fyrirlesara yfir heilan dag, er boðið upp á styttri rafræna fundi og hlaðvörp sem er raðað eftir lykilþemum í stefnu og starfsemi félagsins.

Árni Oddur bendir á að ýmsir atburðir í ytra starfsumhverfinu hafi haft mikil áhrif á matvælaiðnaðinn undanfarin ár. „Hin svokallaða afríska svínapest (e. African swine flu) skall á í nokkrum löndum, m.a. Kína, og hafði neikvæð áhrif á svínarækt. Einnig hafa átt sér stað viðskiptaleg átök milli heimsálfa og loks skellur á Covid-19 faraldurinn, sem veldur miklu raski í aðfangakeðjunni. Þrátt fyrir þetta staðfestum við á fjárfestadögum markmið okkar sem við settum fram árið 2017 um að velta Marel á ársgrundvelli árið 2026 verði orðin þrír milljarðar evra, sem þýðir að við búumst við kröftugum innri og ytri vexti á næstu fimm árum. Að sama skapi staðfestum við stefnu okkar um að árið 2023 verði EBIT framlegð 16%." Sá vöxtur sé samkvæmt vaxtarstefnu félagsins drifinn af stefnumarkandi yfirtökum, fjárfestingum í markaðssókn og öflugri vöruþróun og nýsköpun.

Árni Oddur segir að á fjárfestadögum sé jafnframt veitt innsýn í allar þær nýju lausnir sem kynntar hafa verið til leiks en árlega fjárfestir Marel 6% af tekjum í nýsköpun. Árið 2020 nam sú upphæð 69 milljónum evra eða um 11 milljörðum íslenskra króna og skilaði fleiri en 30 nýjum lausnum sem umbylta matvælavinnslu á markaði. Þar á meðal sé Marel Spectra, sem er afurð stefnumarkandi samstarfs félagsins við hátæknifyrirtækið Tomra. Marel hefur um árabil notað röntgentækni til að finna bein og harða ískotahluti í matvælum, en Tomra hefur þróað annars konar sjóntækni sem gerir Marel Spectra kleift að finna plast og aðra mjúka aðskotahluti.

„Þarna erum við að feta í fótspor sigurgöngu SensorX-vélanna okkar sem finna  bein í matvælum. Fyrsta slíka vélin fjarlægði bein úr fiski en síðar kynntum við til leiks vél sem finnur bein kjúklinga með mikilli nákvæmni. Nú erum við að beina sjónum okkar að plastvánni í matvælum."

Að sögn forstjórans eru mikil vaxtartækifæri í Asíu. Hann bendir á að um helmingur millistéttar heimsins búi í Asíu, en innan við 15% af tekjum Marel komi þaðan. „Við teljum að heimsfaraldurinn hafi leitt í ljós að það þarf að sjálfvirknivæða verksmiðjur mun meira. Viðskiptavinir okkar vilja að við bjóðum upp á heildarlausnir í matvælaframleiðslu og að við fylgjum þeim eftir í sínum vexti. Til þess að við höfum stærðarhagkvæmnina, sveigjanleika og kjark til að fylgja þeim eftir, þá þurfum við einfaldlega að vaxa. Þriggja milljarða evru veltu markmiðið snýst því ekki um peninga, heldur snýst það um að tryggja að við verðum áfram góður, traustur samstarfsaðili fyrir viðskiptavini og það felst m.a. í að við vöxum með þeim.

Nánar er rætt við Árna Odd í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .